Samþykkt á aðalfundi félagsins 2014. Heimilsfangsbreyting samþykkt á aðalfundi 2023.
1. kafli – Heiti félagsins, heimili og hlutverk
1. gr. Félagið heitir Fornbílaklúbbur Íslands. Heimili þess og varnarþing er að Ögurhvarfi 2, Kópavogi.
2. gr. Starfsár félagsins og reikningsár er almanaksárið 1. janúar til 31. desember.
3. gr. Hlutverk félagsins er:
- Að efla samheldni með eigendum og áhugamönnum um gamla bíla.
- Að gæta hagsmuna eigenda gamalla bíla í hvívetna og vera í fyrirsvari fyrir þá gagnvart innlendum og erlendum aðilum.
- Að vekja áhuga á gömlum bílum, efla skilning á minjagildi þeirra og stuðla að varðveislu þeirra, m.a.með útvegun geymsluhúsnæðis fyrir þá.
- Að varðveita varahluti sem félaginu áskotnast og miðla þeim til félagsmanna gegn sanngjörnu gjaldi.
4. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:
- Að stuðla að persónulegum kynnum milli eigenda gamalla bíla á Íslandi.
- Að hvetja félagsmenn til samvinnu um áhugamál sín og að þeir miðli hver öðrum af reynslu sinni og kunnáttu í meðferð, viðhaldi og viðgerðum gamalla bíla.
- Að efna til sýninga, hópaksturs og/eða hæfnisaksturs á gömlum bílum a.m.k. einu sinni á ári.
- Að varðveita gögn sem tengjast sögu vélknúinna ökutækja á Íslandi.
2. kafli – Félagsmenn
5. gr. Allir áhugamenn um gömul vélknúin ökutæki geta orðið félagsmenn.
6. gr. Árgjald félagsmanna skal ákveða á aðalfundi. Félagsmaður telst því aðeins virkur að hann hafi greitt árgjald sitt að fullu fyrir 30. mars ár hvert. Eftir þann tíma falla réttindi félagsmanns niður þar til hann hefur greitt árgjald sitt að fullu. Félagar 80 ára eða eldri greiða ekki árgjald hafi þeir verið virkir félagar í 5 ár samfellt áður.
7. gr. Stjórn félagsins getur vikið mönnum úr félaginu, eða synjað um inngöngu í félagið ef henni þykir efni standa til.
3. kafli – Aðalfundur
8. gr. Hlutverk aðalfundar:
- Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins.
- Aðalfund skal halda í maímánuði ár hvert. Til hans skal boðað með auglýsingum í blöðum eða á annan tryggilegan hátt með viku fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur. Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum (sbr. 10. og 13. grein).
- Atkvæðisrétt á aðalfundi og/eða öðrum fundum félagsins, hafa aðeins þeir félagsmenn sem eru virkir þremur vikum fyrir fund sbr. 6. grein.
- Kjörgengir til stjórnarsetu eru aðeins þeir sem verið hafa virkir félagsmenn í að minnsta kosti tvö ár samfellt fyrir aðalfund og hafa náð 20 ára aldri. Launaðir starfsmenn hjá klúbbnum hafa ekki kjörgengi og hafa ekki rétt til stjórnarsetu.
9. gr. Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:
- Stjórnin leggur fram skýrslu um störf félagsins.
- Ársreikningur félagsins lagður fram ásamt athugasemdum skoðunarmanna til samþykktar.
- Formenn nefnda gefa skýrslu um störf nefnda.
- Kjör formanns og ennfremur þriggja manna í aðalstjórn og tveggja manna í varastjórn (sbr. 4. tl. 12. greinar).
- Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
- Gjaldkeri leggur fram tillögu að árgjaldi næsta starfsárs.
- Önnur mál.
10. gr. Komi fram tillaga um breytingu á lögum félagsins skal hún vera skrifleg og hafa borist stjórn þess eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Lögum verður aðeins breytt á aðalfundi. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum. Nái slík tillaga samþykki tveggja þriðju hluta atkvæðisbærra fundarmanna, öðlast hún þegar gildi.
11. gr. Aðra félagsfundi skal boða með auglýsingu í Skilaboðum og á fornbill.is með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Atkvæðisréttur á þessum fundum er skv. 3. tl. 8. gr.
4. kafli – Stjórn félagsins og stjórnarkjör
12. gr.
- Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum og tveimur til vara. Formaður skal kjörinn sérstaklega til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn skulu kjörnir í einu lagi til tveggja ára, þrír í senn og varamenn skulu kjörnir sérstaklega til eins árs í senn. Sé formaður kjörinn úr röðum stjórnarmanna er ekki hafa lokið kjörtímabili sínu skal kjósa sérstaklega einn stjórnarmann í hans stað til eins árs. Gangi stjórnarmaður úr stjórn fyrir næsta aðalfund eftir að hann er kjörinn skal kjósa sérstaklega einn mann til eins árs í hans stað. Kjörnir skulu tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara. – Stjórn félagsins velur sér ritara og gjaldkera úr hópi stjórnarmanna. Stjórnin tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og annast skuldbindingar og samninga þess gagnvart öðrum aðilum. Undirskrift meirihluta stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.
- Stjórn félagsins er ekki heimilt að veðsetja eignir þess og/eða gera samninga sem samtals nema hærra hlutfalli en einum fimmta af brunabótamati eigna félagsins, að meðtöldum eldri skuldbindingum, án þess að leggja tillögu um slíkt fyrir löglega boðaðan félagsfund. Fram komi í fundarboði að leita eigi heimildar fyrir aukinni veðsetningu eða samningagerð fyrir þess hönd. Slík heimild þarf samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.
- Stjórn félagsins skipar nefndir og formenn þeirra. Allar nefndir skulu halda fundargerðir og ferðanefnd skal halda skrá yfir þær bifreiðar sem taka þátt í ferðum og sýningum sem félagið stendur fyrir eða tekur þátt í. Að öðru leyti setur stjórn félagsins nefndum vinnureglur og skiptir með þeim verkum.
- Stjórn félagsins skipar að lágmarki þrjá menn í kjörnefnd í janúarmánuði hvers árs. Nefndin setur upp framboðslista til stjórnarkjörs á aðalfundi klúbbsins, með nöfnum a.m.k jafnmargra og úr stjórn eiga að ganga og skal höfð hliðsjón af tillögum sem berast kunna frá félagsmönnum. Kynna skal framboðslista mánuði fyrir aðalfund í Skilaboðum klúbbsins og á heimasíðunni „fornbill.is“. Komi fram tillaga um kjörgengan mann á lista frá 20 eða fleiri félagsmönnum eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund, er kjörnefnd skylt að virða þá tillögu. Stjórnarkjör skal vera skriflegt og vera undir stjórn kjörnefndar og í samstarfi við fundarstjóra.
13. gr.
- Stjórn félagsins skal koma saman til fundar eigi sjaldnar en mánaðarlega. Stjórnarfundur er ályktunarbær ef a.m.k. fjórir aðalstjórnarmenn sækja fundinn. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Geti stjórnarmaður ekki sótt fund vegna sérstakra aðstæðna er honum heimilt að vera í fjarsambandi við fundinn. Skal hann þá undirrita fundargerð svo fljótt sem auðið er.
- Formaður er talsmaður félagsins og stýrir stjórnarfundum. Hann skal á aðalfundi ár hvert gefa skýrslu um störf stjórnarinnar og framkvæmdir í félaginu á liðnu starfsári.
- Ritari gegnir störfum formanns í forföllum. Verði formaður ófær um að gegna starfi sínu skal ritari taka við því til næsta aðalfundar enda skal þá fara fram formannskjör. Ritari skal boða stjórnarfund með tryggilegum hætti og með a.m.k. eins dags fyrirvara. Hann ritar fundargerðir stjórnar. Í fundargerðir skal skrá öll mál sem þar ber á góma, allar tillögur er fram koma og niðurstöður í hverju máli. Ritari varðveitir öll bréf, send og móttekin. Hann sér um bréfaskriftir fyrir stjórnina og birtir félagsmönnum bréf og tilkynningar. Meðstjórnandi gegnir störfum ritara í forföllum samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
- Gjaldkeri varðveitir sjóði félagsins og sér um ávöxtun þeirra í samráði við stjórn. Hann greiðir reikninga, annast innheimtur, hefur umsjón með að bókhald sé fært og að ársreikningur sé unnin af endurskoðanda . Meðstjórnandi gegnir störfum gjaldkera í forföllum samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
- Varamenn skulu sitja stjórnarfundi. Þeir hafa tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þeir ekki nema vanti aðalstjórnarmann á fundinn. Sá þeirra sem fær fleiri atkvæði í stjórnarkjöri telst vera fyrsti varamaður.
5. kafli – Ýmis ákvæði
14. gr. Aldur ökutækis skal vera 15 til 25 ár til að það teljist safngripur og 25 ár eða meira til að það falli undir skilgreininguna fornbíll, enda séu bílarnir sem mest í upprunalegri mynd.
15. gr. Komi fram tillaga um það að félaginu skuli slitið skal hún sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytingar (sbr. 10. grein).
16. gr. Hætti félagið störfum skal Þjóðminjasafni Íslands falin umsjón eigna þess þar til nýtt félag, með sama markmið, hefur verið stofnað.