Kæri félagi Fornbílaklúbbs Íslands.
 
Nú er þessu ári að ljúka og rétt að líta yfir farinn veg.
 
Það má segja að klúbburinn sé nú loks komin á beinu brautina, leiðin getur ekki verið annað en greið fyrir okkur.  Á 45 ára afmælisári klúbbsins var nokkrum miklum áföngum náð sem nú leggja grunninn að starfi framtíðarinnar.  Það má fullyrða að fáir ef nokkrir bílaklúbbar veraldar standi betur, eigi góðar og snyrtilegar bílageymslur, glæsilegt félagsheimili og það allt saman svo gott sem skuldlaust.  Félagsheimili okkar að Ögurhvarfi hefur sýnt á undaförnum mánuðum að starfið getur blómstrað þar, bjart og rúmgott húsnæði sem verður fullklárað nú á vormánuðum með stærri innkeyrsluhurð, sviði og hljóðkerfi osfrv sem er á lokametrum í undirbúning og frágang.  Þarna munu meira en 100 gestir getað fengið sér sæti og nóg pláss fyrir 2-3 bíla til að sýna á opnum kvöldum.  Við megum öll vera stolt af þessum árangri sem er okkur sem hóp til mikils sóma.  Þeir fjölmörgu sem hafa unnið starf fyrir þennan klúbb frá stofnun hans eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa með fórnfúsu sínu starfi byggt grunninn að öllu því sem við eigum í dag.  Við þökkum ykkur öllum fyrir.
 
Á nýju ári munum við verða með dagskrá á miðvikudagskvöldum og hvetjum við félaga til að koma með tillögur að skemmtilegum hittingum.  Við þurfum að vera samtaka í því að gera þetta skemmtilegt.  Innan skamms kemur sjálfboðaliðahnappur á heimasíðuna okkar þar sem félagar geta auðveldlega boðið sig fram til hinna ýmsu verkefna sem eru í boði og geta þá verið með í því að skapa félögum skemmtilega umgjörð um þetta skemmtilega áhugamál okkar.
 
Stjórn klúbbsins óskar öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakkar öllum þeim sem hafa verið með okkur á árinu 2022.
 
Með jólakveðju frá stjórn Fornbílaklúbbs Íslands,
 
Bjarni Þorgilsson, formaður.