Eldri fréttir - Maí 2008


Gærkvöldið

Kvöldrúntur var á dagskrá í gærkvöldi og hittust félagar við BYKO í Kauptúni að þessu sinni. Í upphafi ferðar bauð BYKO upp á kaffihlaðborð og tækifæri að skoða verslunina í ró og næði. Eitthvað um 120 manns mættu í gærkvöldi á 53 bílum, en hópnum var síðan skipt upp og farnar tvær leiðir niður í miðbæ Hafnarfjarðar, í tilefni 100 ára afmæli bæjarins.Myndir frá fundinum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [29.05]jslHægri umferð 40 ára

Í dag eru 40 ár frá því að skipt var í hægri umferð á Íslandi. Í tilefni þess, kl. 13, ók Valgarð Briem, fornbíl auðvitað, frá vinstri yfir á hægri akrein fyrir framan Sjávarútvegshúsið á Skúlagötu (gamla Útvarpshúsið) eins og var gert fyrir 40 árum. Eftir fornbílnum komu fulltrúar annar farartækja, nútíma tvinnbíl, mótorhjól og reiðhjól. Valgarð var formaður H-nefndar og ók formlega fyrstur yfir á hægri, þó að það hafi gerst víða á sama tíma t.d. eins og FÍB bílar. Vinstri umferð á sér langa sögu og er rakin til þess þegar menn fóru á hestum og þótti vissara að hafa þá sem á móti komu á hægri hönd svo hægt væri að verjast með sverði. Hægri umferð er rakin til stjórnarbyltingarinnar í Frakklandi en þar var umferð stéttarskipt, en eftir byltingu þótti aðlinum vissara að láta bera minna á sér og fór hægra megin með almúganum. Vinstri umferð er víða ennþá og eru það um 75 lönd á móti 164 sem hafa hægri (samkvæmt uppl. sem eru á netinu), helstu lönd sem aka vinstra megin eru Bretland, Ástralía, Japan, Indland og flest lönd sem tengjast Breska samveldinu. Til stóð að taka upp hægri umferð hér 1941, en var frestað vegna hersetu Breta, þar sem þeir voru auðvitað vanir vinstri umferð.. Árið 1969 setti J. J. Leeming fram rannsókn sem átti að sýna að þau lönd sem óku vinstra megin hefðu minni slysatíðni, en deildar meiningar hafa verið um þá skýrslu, en samt hefur verið sett fram tilgáta um að vinstri umferð henti betur vegna þess að almennt notum við hægra augað meira. Þeir sem hafa reynt að aka í vinstri umferð nefna oft að lítið mál sé að aka þannig, það þurfi að passa sig þegar heim er komið þar sem maður getur ruglast, undirritaður tekur undir það eftir að hafa keyrt í Bretlandi nokkur þúsund km. að auðveldara er að aka þar en hér, en auðvitað spilar umferðamenning (varla til hér) þar inn í. [26.05]jsl


Myndir frá vinnuhelgi á Esjumel

Fyrir stuttu var vaskur hópur mættur á Esjumel í tiltekt og flokkun á bodyhlutum. Ýmislegt annað var gert um leið sem tilheyrir viðhaldi og þar á meðal var sett gönguhurð svo hægt sé að komast í portið á milli skemmu 1 og 2, en fyrir portinu er mikil hurð sem er tveggja manna tak að opna og loka. Um leið og flokkað var nýtilegt frá ónýtu dóti sem hefur safnast upp í gegnum árin voru hlutir merktir, myndaðir og komið á netið í varahlutasöluna. Farið verður í fleiri svona helgar í sumar og haust enda af nógu að taka. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari helgi. [23.05]jsl


Aðalfundur í gærkvöldi

Aðalfundur Fornbílaklúbbs Íslands var haldinn í gærkvöldi á Hótel Loftleiðum og voru um 80 félagar mættir. Venjuleg aðalfundarstörf voru á dagskrá, kjör þriggja stjórnarmanna og tveggja varamanna. Ingibergur Bjarnason gaf ekki kost á sér áfram og þakkar stjórn honum fyrir unnin störf á síðustu árum. Einnig var kosið um nokkrar lagabreytingar. Farið var vel yfir stöðu byggingamála og flutti Maríus Jónasson hjá VSÓ Ráðgjöf skýrslu, en VSÓ er eftirlitsaðili fyrir klúbbinn. Heiðursviðurkenningar voru afhentar þeim Árna Magnússyni, Ásmundi Jónassyni og Kjartani Friðgeirssyni fyrir störf þeirra í Félagatenglsanefnd á fyrstu árum klúbbsins, en þeir stóðu fyrir fyrstu ferðum klúbbsins og öðru félagsstarfi sem mótaði síðan dagskrá klúbbsins næstu ár á eftir. Eftir fund var farinn léttur rúntur inn í Elliðarárdal og húsið skoðað, en allt glugga og þakefni er komið á staðinn og verður fljótlega í næstu viku hafist handa við þakið. Niðurstöðu kosninga er hægt að sjá á kynningarsíðu framboða. Myndir frá fundinum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga.[22.05]jsl


21. aldar Model T

Í tilefni 100 ára afmælis Model T bauð Ford nokkrum nemendum í hönnun að sýna þeirra útgáfu af 21. aldar T Fords. Þeirra hugmyndir eru nokkuð frumlegar svo ekki sé meira sagt, væri einhver þessara hugmynda notuð til að framleiða framtíðar Model T er nokkuð víst að þeir mundu ekki lifa jafn lengi og sá upprunalegi. Hérna er hægt að sjá myndir af þessum hugmyndum. [19.05]jsl


Bílakirkjugarðar

Heimir H. Karlsson sendi okkur tengil á þessa síðu þar sem er að finna margar myndir af bílum er standa rotnandi hingað og þangað um sveitir Bandaríkjanna. Þessar myndir virðast samt vera vinsælar, þar sem hægt er að ná í stærri útgáfu af þeim til að nota sem skjámynd, hvort sem mönnum finnst það spennandi eða ekki. Allavega er ágætt að kíkja á svona myndir annað slagið, þar sem maður verður vel ánægður með sinn bíl, þó svo það séu kannski einhverjar rispur eða sjáist á krómi. [16.05]jslGærkvöldið

Annar kvöldrúntur sumars var á dagskrá í gærkvöldi og var mæting við Blómaval. Þaðan fóru síðan um 40 bílar í frjálsri keyrslu út á Seltjarnarnes, þar sem hópast var saman áður en haldið var niður í miðbæ þar sem endað var í kaffi á Café Segafredo, en bílum var lagt þar fyrir framan á Lækjartorgi og vakti þessi óvænta "sýning" athygli hjá ferðamönnum í miðbænum. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [15.05]jsl


Afsláttarkjör

Nýr aðili hefur bæst við þá sem bjóða félögum afslátt af vörum, Fossberg ehf Dugguvogi 6. Kjör þeirra til félaga eru einföld, heildsöluverð af öllum vörum. Við viljum minna félaga á að skoða reglulega lista yfir þá sem bjóða sérkjör til félaga og munið að sýna félagsskírteinið, gleymt skírteini = tapaður afsláttur. [14.05]jslGamlir í Utah

Þessar myndir fengum við frá Kristjáni S. Ólafssyni en þær voru teknar nýlega rétt fyrir utan Salt Lake City í Utah. Þarna var að finna margar fyrrverandi glæsikerrur, en hafa greinilega verið lítið notaðar síðustu árin, enda allar greinilega bústaðir íkorna og annarra dýra. Guli Caddin er víst falur á 25.000 þús. dollara en hinir eru ekki til sölu. [08.05]jsl


Polarrally 2008

Síðunni barst ábending frá Timo Vuortio einum aðstandenda Polarrally 2008 sem verður haldið í Svíþjóð næstkomandi júní og býður um leið þeim sem hafa áhuga að taka þátt. Ekki virðist vera nauðsynlegt að vera á sínum bíl því nefnt er að hægt sé að fá bíla lánaða. Rallið er fornbílarall svo ekki er áherslan á hraða, svo þetta hentar ýmsum og þó að ekki sé verið að taka þátt er upplagt að kíkja á þetta ef verið er á ferðinni á þessum slóðum í sumar. Umsókn um þátttöku rennur reyndar út í dag en örugglega verður tekið vel í umsóknir ef haft er samband strax. www.polarrally.nu [06.05]jsl
Skoðunardagur og vorferð

Síðasta laugardag var hinn árlegi skoðunardagur FBÍ og var nýtt met í mætingu sett, en 140 bílar fóru í gegnum skoðunarstöð Frumherja. Skoðun hófst um kl.09 og lauk rétt um kl. 14, og ef marka má fjölgun á milli ára þá fer skoðun að verða fram eftir degi, enda væsir ekki um félaga í þessari heimsókn til Frumherja þar sem boðið var upp á kaffi og bakkelsi allan tímann og eitthvað um 400 pylsur voru grillaðar. Eins og venjulega var nokkuð um nýja bíla og eins bíla sem hafa legið í dvala og eru að koma út eftir uppgerð, eða hafa eignast nýja eigendur. Eftir skoðun var farið í svokallaða vorferð og í stað þess að fara eitthvað út fyrir bæinn var stefnan tekin á Bessastaði þar sem viðhafnarbíll forseta var formlega afhentur embættinu, en eins og flestir vita þá er það 1942 Packard 180 sem var gerður upp á síðustu árum, en hann var keyptur á sínum tíma fyrir embættið í tíð Sveins Björnsonar í stað Packards þess sem fór niður með Goðafossi, en Roosevelt Bandaríkjaforseti hafði gefið þjóðinni þann bíl. Af þessu tilefni tók forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á móti þessum hópi fornbílamanna og öðrum sem hafa komið við sögu þessarar uppgerðar en hún á sér langa sögu. Í heild var þetta hinn besti fornbíladagur er mun lifa í minningu manna. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga bæði frá skoðun og eins Bessastöðum. [05.05]jslFyrsti kvöldrúnturinn

Síðasta miðvikudagskvöld var fyrsti rúntur sumars á dagskrá og mættu um 30 bílar við Kjarvalsstaði, sem er nokkuð gott miðað við að ekki eru allir búnir að taka út sína bíla. Farinn var léttur rúntur í gegnum miðbæinn áður en var farið í ET þar sem ferðanefnd bauð í kaffi. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. Minnum á að opið er í geymslum í kvöld milli 20 og 23 fyrir þá sem vilja sækja sinn bíl fyrir skoðunardag. [02.05]jsl