Eldri fréttir - Janúar 2007


Vinna hafin

Nú er hafin vinna við sökklana þar sem hið nýja félagsheimili okkar mun rísa í Elliðarárdal, fljótlega verður síðan farið í að reisa steypumót fyrir veggi. Búið er að reisa byggingarkrana og flytja mótin á staðinn. [31.01]jsl


Factory AutoManuals

Hjá Factory AutoManuals er hægt að fá ýmsar handbækur fyrir eldri bíla. Mismunandi efni er til eftir tegundum, en það getur verið frá sölubæklingum til viðgerðahandbóka. [29.01]jsl/sh


Helgargrams

Hérna er ein góð síða til að skoða um helgina. Myndir eru flokkaðar eftir tegundum og með hverri síðu er smá lesning um viðkomandi tegund. Neðst á síðunni eru ýmsir tenglar sem einnig er fróðlegt að kíkja á. [26.01]jsl


Vélarhreinsun

Þar sem veturinn er góður tími til að dytta að hinu og þessu fyrir næsta sumar, er hreinsun á vélarsalnum eitt af því sem hægt er að gera. Á þessari síðu er farið yfir nokkur góð ráð sem er gott að hafa í huga þegar farið er í verkefnið. Eins væri gaman ef félagar kæmu með sín ráð og "trikk" sem þeir nota á þessum þræði á Fornbílaspjallinu. [25.01]jsl


Góðir fornbílamenn kveðja

Á liðnum vikum hafa þrír mætir fornbílamenn kvatt tilveru vora.

Unnsteinn Pálsson var einn af brautryðjendunum í Fornbílaklúbbnum og tók lengi þátt í ferðum hans á fornbíl sínum, Buick árgerð 1955, sem áður hafði reyndar verið brúksbíll hans um áraraðir.

Skúli Ólafsson féll frá langt um aldur fram og er hans sárt saknað, enda tíður gestur á rabbkvöldum klúbbsins. Hans verður auk þess minnst fyrir frábæra fundarstjórn á aðalfundum klúbbsins á umliðnum árum.

Albert Jónasson var aldursforseti klúbbsins, 91 árs að aldri þegar hann féll frá. Í bílskúr sínum átti hann forláta Dodge-bíl sem hann keypti nýjan árið 1965.

Stjórn og félagar klúbbsins minnast þessara þriggja félaga sinna með hlýhug og þakklæti fyrir langa og góða samfylgd. [24.01]jsl/ös


Astor Classics Event Center

Í þessu safni, sem er í Kalíforníu, eru til sýnis fornbílar, gamlir símar og útvarpstæki. En fyrir utan að vera safn, þá er það leigt út fyrir ýmsar samkomur, hvort sem það eru kynningar, fundir eða veislur. Kannski getum við horft til samskonar notkunar í okkar safni sem fer nú að rísa fljótlega. Hérna er hægt að sjá vídeó frá safninu og starfsemi þess (að vísu mundu veislur hér á landi ekki vera með plaststólum og gestum í stuttbuxum!). [19.01]jsl/gös


Interstate

Þjóðvegakerfi í Bandaríkjunum er kallað Interstate, en heitir fullu nafni "Dwight D. Eisenhower National System of Interstate and Defense Highways" og oftast talað um vegi sem I-90 eða I-40. Kerfið er eitthvað um 47 þúsund mílur og var byrjað á því árið 1956, og varð það því 50 ára í fyrra. Auðvitað var haldið upp á þetta afmæli með ýmsum hætti og þar á meðal var þessi vefsíða gerð með ýmsum upplýsingum um vegakerfið. Það sem er skemmtilegast við síðuna er að skoða myndir frá þessum fyrstu árum. [18.01]jsl/gös


Félagaskrá uppfærð

Vegna ýmissa ástæðna og anna hefur félagaská ekki verið uppfærð í smá tíma, en nú hafa allir nýir félagar verið færðir inn í netskrána, en nokkrar bílaskráningar vantar ennþá og koma þær inn á næstu dögum. Eitthvað hefur vantað uppá að fá nógu mikið af upplýsingum og myndir frá nýrri félögum og biðjum við félaga að kíkja á sína skráningu og senda það sem vantar. Auðvelt er að fylla út viðkomandi form og senda mynd með ef hún er til í tölvu viðkomandi. [17.01]


Austin-Rover

Hérna er góð síða um Austin og Rover, farið er yfir tegundir og þróun þeirra með mikið af myndum. Þarna er einnig að finna ýmsar upplýsingar um þessa bíla, linka á aðrar síður sem tengjast vissum gerðum og spjall fyrir eigendur Austin-Rover. [16.01]jsl/gös


Stefnir í 500 setta markið!

Að afloknu sex ára þrotlausu starfi hafa 499 steðjanúmerasett litið dagsins ljós hjá númeradeild Fornbílaklúbbsins, sem er margfalt meira en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Eins og gefur að skilja hefur aukinn fornbílaáhugi og óvenjumikill innflutn-ingur glæsilegra fornbíla á liðnum misserum haft mikil áhrif á eftirspurn eftir steðjanúmerum. Nú styttist óðum í vorið og því er nauðsynlegt að gera fornbílinn kláran sem fyrst með góðu fornnúmeri á sjálfu afmælisárinu. Eina sem þarf að gera er að slá á þráðinn í síma 895-2400 og panta sér númer. [15.01]ösHauspokabílar

Þetta er ný skilgreining á ljótum (eða allavega sem sumum finnst) bílum sem við sáum nýlega á netinu , sem sagt hvað þarf maður að vera með marga hauspoka til að fást upp í viðkomandi bílategund. Smá "komment" er við hvern bíl og þar sem enginn ætti að taka þetta hátíðlega, þá er hægt að skemmta sér ágætlega yfir þessum lista og jafnvel tilnefna fleiri hauspokabíla. www.uglycars.co.uk [12.01]jsl/gös


Dellow

Og hvað er Dellow munu margir spyrja, en Dellow er breskur bíll sem var unninn upp úr "The Flipper" sem var smíðaður árið 1947 upp úr Austin 7 til þess að taka þátt í keppni sem bretar kalla almennt sem "the trials" eða almenn samsuða af rallý, tímaþrautum og brekkuklifri. Eftir að þessi bíll hafði komið vel út í keppni var farið að framleiða þá og voru margar útfærslur framleiddar til ársins 1959, en fjöldi þeirra var ekki mikill en það gerir þá um leið eftirsótta. Hérna er hægt að sjá meira um Dellow gerðir og annað sem tengist þeim. Eins er hægt að sjá meira um þessar keppnir hér og einnig video frá þeirri síðustu sem var haldin í Exeter um síðustu helgi. [11.01]jsl


Einn dagur breytir öllu

Á þessum degi árið 1901 breyttist allt sem við kemur sögu Texas og bílasögu Bandaríkjana. Þennan morgun hófst olíuævintýri sem hafði aldrei sést áður þegar olíulindirnar í Spindletop byrjuðu að spúa olíu með miklum krafti. Íbúafjöldi fór úr tíu þúsund í fimmtíu þúsund á nokkrum mánuðum og þegar ævintýrið stóð sem hæst voru 200 olíuborturnar á þessari hæð. Þegar farið var að átta sig á hversu gífurlegt magn af olíu var að finna þarna, þá var ekki lengi verið að finna notkun fyrir hana, t.d. var Santa Fe Railroad með eina lest sem notaði olíu árið 1901, en var árið 1905 með 227 lestar. Margir vilja halda því fram að þessi olíufundur hafi einn og sér staðið fyrir þeirri öru þróun sem varð á notkun bíla með bensínvélar í stað gufu og rafmagns og gert Bandaríkin að risa í bílaframleiðlsu, ef þessi fundur hefði ekki orðið hver veit þá hvernig bílasagan hefði orðið. Hérna er hægt að lesa meira um Lucas Gusher í Spindletop. [10.01]jsl


Automobilia Club Denmark

Margir sem eru með bíladellu safna auglýsingabæklingum um bíla, sumir bara vissar tegundir eða árgerðir, en aðrir halda bara til haga því sem hefur borist þeim í hendur. Automobilia Club Denmark er klúbbur fyrir þá sem safna bílabæklingum, jafnt nýjum sem gömlum. Á heimasíðu þeirra er hægt að sjá forsíður bæklinga og eins upplýsingar um sýningar og markaði. [08.01]jsl/gös


Afmælisár gengið í garð

Fornbílaklúbburinn fagnar merkilegum áfanga á árinu, en hann verður þrítugur þann 19. maí nk. Að því tilefni verður haldin sérstök afmælissýning og reiknað er með afmælisfagnaði á sjálfan afmælisdaginn, en hann ber upp á laugardag. Auk þess verða ýmsar uppákomur allt árið, meðal annars í ferðum klúbbsins. Á síðasta ári var skipuð afmælisnefnd og vinnur hún að undirbúningi afmælisins. Í henni sitja félagarnir Egill Matthíasson, Hróbjartur Örn Guðmundsson, Jón S. Loftsson, Jón H. Sigurjónsson, Kjartan Friðgeirsson og Örn Sigurðsson. [05.01]jsl


Volvo P1800

Eflaust finnst mörgum P1800 vera frægastur af þeim tegundum sem Volvo hefur framleitt, en ekki ætlum við að dæma um það, heldur bendum við hér á síðu sem fer yfir sögu P1800 og hefur einnig að geyma myndir og fleira sem tengist P1800. Ýmislegt gekk á þegar til stóð að framleiða þennan bíl, en frægastur varð hann eftir að Roger Moore ók um á slíkum bíl í þáttunum um Dýrlinginn. Reyndar átti að nota Jaguar í þeim þáttum en Jaguar gat ekki skaffað bíl tímanlega, það þarf ekki mikið til að gera bílasöguna. [04.01]jsl/gös


Stór myndasíða

Sigurbjörn Helgason sendi okkur ábendingu um þessa síðu, þar sem hægt er að sjá mikið af myndum sem eru teknar á sýningum og söfnum í USA. Einnig er að finna þar lista yfir væntanlegar sýningar í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. [03.01]jsl