Eldri fréttir - Apríl 2004


MOPAR-sýning í Smáralind um helgina

Fyrir þessari bílasýningu stendur Mopar-klúbburinn sem er hópur rúmlega 10 eilífðarunglinga. Á sýningunni gaf að líta bílaflota félagsmanna og vina þeirra. Sameiginlegt áhugamál félagsmanna eru bílar frá MOPAR, en MOPAR bílar eru allir bílar sem framleiddir hafa verið í Dodge, Plymouth og Chrysler verksmiðjunum. Á sýningunni voru ný og gömul tryllitæki frá MOPAR, sum flutt ný til landsins, önnur komu í gegnum hina sálugu Sölunefnd varnarliðseigna, og enn önnur hafa verið flutt inn notuð. Strákarnir í MOPAR-klúbbnum hófu að hittast reglulega 1984 og á klúbburinn þeirra 20 ára afmæli í ár. [30.04]jsl


1901 1929 1938 1941
1948 1949 1954 1955
Síðasti Oldsmóinn rennur af færibandinu í dag!

Í dag lýkur meira en aldarlangri sögu Oldsmobile-bílasmiðjanna í Bandaríkjunum, sem settar voru á laggirnar í Detroit árið 1897 af Ransom Eli Olds. Eftir eldsvoða í verksmiðjunum árið 1901 var fyrirtækið flutt til Lansing í Michigan, þar sem allri framleiðslu mun ljúka í dag. Bíllinn sem að skaut stoðum undir Oldsmobile var hinn svonefndi Curved Dash sem framleiddur var í 11.000 eintökum frá 1901-1907, en hann telst vera fyrsti fjöldaframleiddi bíll heims. Síðasti Oldsmóinn, sem renna mun af færibandinu í dag, er hins vegar af gerðinni Alero. Hér eru nokkrir fróðleiksmolar um Oldsmobile: www.oldsmobile.com  og ein ný frétt  www.detnews.com/2004 [29.04]ösSíðasta númerasmíði fyrir vorferð!

Um næstu helgi verða síðustu númerasettin smíðuð fyrir skoðunardaginn 8. maí og því er um að gera að ráðast í að panta númer strax. Sá sem enn misþyrmir fornbíl sínum með færeyskum númerum, getur bætt ráð sitt með því að hafa samband við Umferðarstofu í síma 580-2000 og panta rétta skráningu gegn 500 kr. gjaldi. Síðan tekur númeradeild klúbbsins við smíðapöntun í síma 895-2400. Einfalt og fljótlegt og ætti engum að vera ofraun. [28.04]ösNýr DAS-bíll; Chevrolet Bel Air árgerð 1954!

Í tilefni af 50 ára afmæli Happdrætti DAS hefur verið fluttur til landsins Chevrolet Bel Air árgerð 1954, sem er nákvæmlega eins og fyrstu 6 bílarnir sem spilað var um í happdrættinu fyrir hálfri öld. Hugmyndina að þessu tiltæki átti Örn Sigurðsson fyrrverandi formaður Fornbílaklúbbsins, en þegar hann vann að ritun Íslensku bílaaldarinnar á síðasta ári, þurfti hann að handfjatla nokkrar ljósmyndir frá DAS og þá kviknaði hugmyndin. Forsvarsmenn DAS slógu til og eftir tveggja mánaða leit fann Örn flott eintak vestur í Hollywood og var bíllinn fluttur 9000 km leið til Íslands í byrjun apríl, en síðasta spölin kom hann með Flugleiðaþotu. Bíllinn, sem er allur hinn glæsilegasti, verður aðalvinningur í afmælishappdrætti DAS, en dregið verður þann 8. júlí í sumar. Verður bíllinn meðal annars á afmælissýningu Fornbílaklúbbsins 4. - 6. júní. [26.04]jslSumardagurinn fyrsti

Í gær var einstaklega gott veður og sást það vel að fornbílamenn eru búnir að dusta rykið af sínum bílum og voru margir á ferðinni í gær. Nokkrir fornbílafélagar úr Seljahverfinu hittust á hverfishátíð og settu upp smá sýningu þar. Margir fornbílar sáust á ferðinni um allan bæ, og um kvöldið var fyrsti Ak-Inn rúnturinn sem endar að venju niður á miðbakka þar sem fjöldi bíla var samankominn. [23.04]jslVantar upplýsingar

Félagi okkar, Hlynur Tómasson, er að leita eftir upplýsingum um 1940 M20 BSA mótorhjól sem hann er með í uppgerð.Hægt er að sjá stærri mynd af þessu hjóli og nánari upplýsingar um þessa leit Hlyns á spjallborði FBÍ. [22.04]jslVolkswagen 49 ár í vestrinu

Á þessum degi árið 1955 var fyrirtækið Volkswagen of America Inc. stofnað í Engelwood í New Jersey. Þetta ár var einnig tímamótaár fyrir þýska Volkswagen-fyrirtækið, því þá rann milljónasta bjallan af færibandinu og í fyrsta skipti fór framleiðslan yfir 1000 eintök á dag. Árið 1955 leit sportbíllinn frá Volkswagen ljós, Karmann Ghia, sem átti eftir að verða afar vinsæll í Bandaríkjunum. En það var þó ekki fyrr en áratug eftir að fyrsta bjallan ók á land í vesturheimi að hún var farin að ógna verulega risunum þremur í Detroit, en þá má líka segja að henni hafi tekist að stöðva einokun þeirra á bílamarkaði vestra. [19.04]ösMeira um Trabant

Þar sem margir hafa lýst áhuga á Trabant eftir frétt í gær, fundum við dreifingaraðila í Ástralíu sem sérhæfir sig í Trabant og TSV (Trabant Special Vehicles). Hjá þeim er hægt að fá bæði Trabant 601 og Trabant 601 de luxe (þessi með öskubakkanum aftur í). Tvær aðrar útgáfur eru einnig boðið upp á, Havana Club Sport og Trabant PolitBuro. Á heimasíðu þeirra er mikið um upplýsingar um Trabant og helstu gæði þeirra. Heimasíða Melbourne City Trabant og TSV. [16.04]jsl


Gleymdur bíll, Trabant

Yngri kynslóðir hafa ekki séð nokkrar tegundir af bílum sem voru algengir hér áður þar sem þeir hafa týnt tölunni smá saman og hreinlega gleymst. Þar á meðal er Trabant. Þessir bílar, sem þóttu nú aldrei neinir eðalvagnar, gerðu nú sitt gagn og meira að segja var til sérstakt félag Trabant eiganda hér á árum áður. Fréttasíðan rakst á smá grein um sögu Trabant og eins nokkrar myndir af uppgerðum og breyttum "Tröbbum".[15.04]jsl


"Bílar sem reyndust öðru vísi"

Nú hefur Leó M. Jónsson tekið saman grein um ýmsa bíla sem hann hefur kynnst í gegnum árin. Bílar frá Fiat, Ferrari, Renault, Jaguar og Volvo fá allir smá skammt í þessari grein. Eins og venjulega skrifar Leó sína skoðun en ekki eins og margir gera, skrifa svona "miðjumoð" svo að allir séu sáttir. [14.04]jslDóta- og verkfærakvöld

Í gærkvöld var haldið hið árlega dóta- og verkfærakvöld. Voru greinilega margir komnir í páskafrí, en þrátt fyrir það var þokkaleg mæting og góðir gripir sýndir. Borgþór Stefánsson hlaut fyrsta sæti fyrir Athyglisverðasti gripinn, en það var jeppi og flugvél sem hann hafið smíðað. Getraun var einnig haldin, hlaut Skúli Ólafsson 1. sæti í henni. Hér er hægt að sjá myndir frá þessu kvöldi. [08.04]jslLandafræði og saga koma sér vel í fornbílaleit

Sá sem hyggur á fornbílakaup í Bandaríkjunum getur haft góð not af sögu og landafræði. Bandaríkin eru í raun heimsálfa með afar fjölbreytileg landfræðileg- og efnahagssöguleg skilyrði. Bílar frá suðurríkjunum eru t.d. mun minna ryðgaðir en bílar frá norðurríkjunum, svo ekki sé talað um stórborgarbíla norðursins, þar sem götur eru saltbornar að vetrarlagi. Þó sólin geti vissulega skaðað bíla suðursins, fer hún mun mildari höndum um þá en rigning og frost. Ef litið er á efnahagshliðina, þá eru bílar frá Texas yfirleitt ríkulega búnir aukahlutum, enda ríkið olíuauðugt. Fornbílar í Florída eru að sama skapi snauðir af aukahlutum og oftar en ekki miðstöðvarlausir. Florida var nefnilega lengi vel eitt af fátækari ríkjum Bandaríkjanna, eða allt þangað til að ferðamenn og ríkir norðanmenn uppgötvuðu þennan sólríka stað eftir miðja 20. öld. [07.04]ösFimmtugsafmæli Ponton-Benzanna

Í júlí n.k. verða 50 ár liðin síðan að Ræsir hóf innflutning og sölu á Mercedes Benz-bílum og fyrstu árin var uppistaðan í þeim viðskiptum gerðirnar 180, 190, 219 og 220, sem fornbílamenn nefna iðulega Ponton-Benza. Í september sl. var haldið upp á fimmtugsafmæli þeirra í þýsku bílaborginni Stuttgart og þar gat að líta glæsilegt samansafn fornbíla, eins og glöggt má sjá hér: www.50jahreponton.de [05.04]ös


Grein um Camaro

Ekki þarf alltaf að leita út fyrir landsteinana til að finna góðar greinar um bílategundir. Gunnar Ævarsson, félagi í FBÍ, hefur skrifað góða grein um sögu Camaro og ýmsar staðreyndir um þá tegund, en hann er sjálfur eigandi að einum Camaro SS/RS 350, síðan 1985.[02.04]jsl www.bilavefur.com/menning/Camaro


Nýtt á fornbill.is

Nú er búið að opna nýtt Fornbílaspjall, og er það samskonar kerfi og menn þekkja frá öðrum spjallborðum, svokallað phpBB spjall. Spjallinu er skipt upp í nokkur spjallsvæði svo að allir ættu að finna sér stað fyrir sitt svið. Hægt er að bæta við sérsviðum ef óskir um það berast, jafnt opið sem lokað spjall. Inn á þessu spjalli hefur einnig verið sett upp "Bíll vikunnar" þar sem hægt verður að kjósa um flottasta bíl vikunnar, "Myndagáta" þar geta menn reynt vikulega við þekkingu sína á bílum (má jafnvel búast við smá verðlaunum í lok árs fyrir þann sem oftast kemur með rétt svar) og síðan "Skoðunarkönnun FBÍ" en þar verða kannanir og kosningar um ýmis mál sem varða starf FBÍ. Allir sem nota spjallið þurfa að skrá sig inn, þar sem gestir geta eingöngu tekið þátt í Almennu spjalli. Að lokum er bent á að auglýsingar eru ekki leyfðar á þessu spjalli, til þess er Markaður FBÍ. Vonandi verður þetta nýja spjallborð fljótlega líflegur og skemmtilegur vettvangur fornbílamanna. Eldra spjalli er hægt að skoða (ekki svara) undir "Starfsemi FBÍ".[01.04]jsl