Eldri fréttir - Nóvember 2002

Síðasta sýning fyrir geymslu

Fornbílamenn eru gjarnir á að teygja lopann og nota fornbíla sína eins lengi á haustin og veður leyfir, enda margir dimmir dagar til vors, þegar þeir komast aftur í umferð á nýjum ári. Kollegar okkar í vesturheimi eru engin undantekning frá þessu og í október var haldin fornbílasýning í Lansing sem kölluð er síðasta sýning fyrir geymslu. Ekki var sýningin fjölsótt, en samt voru þar nokkrir bitastæðir fornbílar. [29.11]Glæsilegt fornbílasafn Toyota skoðað!

Í gærkvöldi fóru 50 fornbílamenn saman og kynntu sér starfsemi Toyota í Kópavogi. Tekið var á móti þeim í söludeildinni við Nýbýlaveg þar sem kaffi, snittur og stórtertur biðu. Síðan var farið í Vesturvörina þar sem fornbílasafn fyrirtækisins var skoðað, en það telur nú um tíu bíla. Flaggskipið var að vísu fjarverandi, en það er forláta Landcruiser jeppi af árgerð 1965 sem fyrirtækið lét gera upp vestur í Bandaríkjunum. Eftir komuna til Íslands hefur gripurinn vakið óskipta athygli Toyotamanna vítt og breitt um heiminn og víða verið lánaður á sýningar. Núna er honum stillt út í sýningarsal Toyota France við helsta breiðstræti Parísarborgar, þar sem verið er að kynna nýja gerð Landcruiser jeppa. Fullyrða má að þessi bíll sé að verða einn víðförlasti og þekktasti fornbíll Íslandssögunnar. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru á safni þeirra Toyotamanna í gærkvöldi. [28.11]


75 ára afmæli A-Fordsins!

Í dag, 26. nóvember, eru 75 ár síðan að A-Fordinn var fyrst kynntur opinberlega, en hann leysti af hólmi hinn lífseiga T-Ford sem framleiddur hafði verið í 15 milljónum eintaka allt frá árinu 1908. T-Fordinn var byltingarkenndur bíll í upphafi, en var orðinn hræðilega úreltur á árunum eftir 1920 og sala hans fór hraðminnkandi eftir því sem leið á áratuginn. Í maímánuði árið 1927 var öllum Fordverksmiðjum í Bandaríkjunum lokað, svo hægt væri að breyta þeim fyrir nýja Fordinn, sem þótti mjög nýtískulegur bíll á sínum tíma. Hann var knúinn 4ra strokka 200 kúbika vél sem skilaði 40 hestöflum. A-Fordinn var framleiddur í nærri fimm milljónum eintaka til ársins 1932, þegar B-gerðin tók við. Þeir sem vilja kynna sér A-Fordinn betur og skoða glæsilegar myndir er bent á eftirfarandi slóð: www.mafca.com/ [26.11]


Vel heppnuð árshátíð!

Árshátíð Fornbílaklúbbsins var haldin á Hótel Sögu síðasta laugardagskvöld og heppnaðist hún með miklum ágætum. Mættu tæplega 100 gestir til leiks og skemmtu sér konunglega fram eftir nóttu. Nú eru komnar inn myndir frá hátíðinni á netið. [25.11]


Hvað gerðist í bílasögunni á þínum afmælisdegi?

Nú hefur History channel stöðin sett upp heimasíðu þar sem hægt er að sjá hvað gerðist í sögunni, þar á meðal bílasögunni, á hverjum degi ársins. Auk þess er hægt að fletta í dagatali og sjá hvað gerðist á ákveðnum dögum, t.d. á afmælisdeginum þínum. Kynntu þér málið og sjáðu hvað gerðist í bílasögunni á þínum deg. [22.11]Tempo Vidal 1937
Fyrsti jeppinn á Íslandi

Í gærkvöldi hélt Hallur Hallsson rithöfundur og blaðamaður merkilegan fyrirlestur um sögu Olís og sýndi fullt af skemmtilegum bílamyndum. Þar á meðal var mynd af fyrsta jeppanum sem kom til Íslands, en það var ekki Willys eða Ford herjeppi, eins og flestir virðast halda, heldur þýskur herjeppi af gerðinni Tempo Vidal. Hann kom til landsins árið 1937 ásamt tveimur ökumönnum, leikaranum Herbert A. Böhme og náttúrufræðingnum dr. Helmut Verleger. Tilgangurinn með ferð þeirra félaga var að prófa þennan torfærubíl við erfiðustu aðstæður. Í því skyni óku þeir um landið þvert og endilangt, lögðu að baki samtals 1800 km og reyndist Tempóinn hið besta. [21.11]


Merkasti arkitekt bílasögunnar

Þessa dagana er verið að leggja síðustu hönd á teikningu Fornbílaklúbbsins að safna- og félagshúsi í Elliðaárdalnum, en hún er verk Egils Guðmundssonar arkitekts. Það er gaman að geta borið verk hans saman við hús merkasta arkitekts bílasögunnar, sem er Albert Kahn. Albert þessi var þýskur að uppruna en flutti ungur að árum með fjölskyldu sinni til Detroit. Þar hannaði hann þúsundir bygginga, þar á meðal flestar bílaverksmiðjur borgarinnar, m.a. hinar gríðarstóru aðalstöðvar General Motors, Packard og Hudsonverksmiðjurnar og um eitt þúsund byggingar fyrir Ford, vítt og breitt um borgina. Auk verksmiðjubygginga teiknaði Kahn hallir yfir iðjuhölda borgarinnar. Nánari upplýsingar um þennan merka mann ásamt ljósmyndum hér: www.detnews.com [20.11]


Hudson sálugi

Þótt fáir Hudsonbílar hafi lifað af erfiða baráttu við tímans tönn hér á Íslandi fyrirfinnast nokkrir fornbílamenn sem lagt hafa sig í líma við að halda þessu merka vörumerki á lofti. Þar fer fremstur Ársæll Árnason sem á Hudson ´47 sem telst nokkuð mikið brúkaður fornbíll, enda búinn að fylgja Fornbílaklúbbnum frá upphafi. Hudson hóf framleiðslu bíla árið 1909, var orðinn þriðji stærsti bílaframleiðandi heims árið 1929, en lenti í miklum mótbyr á dögum heimskreppunnar miklu og lét svo endanlega í minni pokann í samkeppnisbrjálæði eftirstríðsáranna. Skemmtileg grein og flottar myndir á meðfylgjandi slóð, en þar er meðal annars að finna mynd af forláta Hudson blæjubíl árgerð 1937, en þannig bíll er til hérlendis og hefur verið nokkuð lengi í uppgerð: www.detnews.com [15.11]


Sögulegur bílastaður hreinsaður til

Hinn 93 ára gamli Carl Altz man greinilega eftir þeim dögum þegar hann starfaði sem tilraunaökumaður hjá Packard á 4 km langri hringbraut fyrirtækisins við bæinn Shelby nærri Utica í Michiganríki og náði að kreista þessa miklu bíla upp í 220 km hraða á klukkustund. Tilraunabrautin var sett á laggirnar árið 1925 þegar sýnt þótti að of hættulegt væri að nota götur Detroitborgar til hraðaksturs. Þó margir fornbílamenn haldi að fyrirstríðsbílar hafi vera hæggengir sem hestvagnar, þá var slegið met á Packardbrautinni árið 1928, sem stóð í heil 20 ár. Þá náði bíll þar heilum 238 km hraða á klukkustund! Nú er verið að gera upp brautina og ryðja burt skógi og illgresi sem fengið hefur að grassera á svæðinu í yfir 40 ár. Auk þess er verið að laga íbúðarhús og bíkskúra á svæðinu, en öll húsin voru hönnuð af Albert Kahn, sem kallaður hefur verið arkitekt bílaborgarinnar. Sjá fornbílamyndir og nánari umfjöllun hér: www.detnews.com [14.11]


Listrænir fornbílar í Nýju Jórvík

Þessa dagana reynir stjórn klúbbsins að fá aðflutningsgjöld felld niður af fornbílum í skjóli þess að þeir séu listaverk, forngripir eða einfaldlega leikföng, þ.e. allt annað en samgöngutæki. Nú er spurning hvort okka ágæti fjármálaráðherra taki sér ferð á hendur og heimsæki Rockefeller Center í New York og sjái listaverkin með eigin augum, en þar eru samankomnir 32 fornbílar sem búið er að sprauta silfurlitaða, en saman eiga þeir að tákna 20. öldina. [13.11]


Bílasýningar liðinna tíma

Nú eru bílasýningarnar miklu í Frankfurt og París nýlega afstaðnar og það helsta þaðan verið kynnt á bílasíðum íslenskra dagblaða og einn og einn bíll hefur meira að segja ratað á sjónvarpsskjáinn. Þessar sýningar voru síst lakari í gamla daga þegar fornbílarnir okkar voru nýir og fólk streymdi til að skoða þessa nýju og glæsilega brúksbíla. Í bílaborginni Detroit hófust bílasýningarnar árið 1899 og hafa gengið allt fram á þennan dag. Fullyrða má að meðan Bandaríkjamenn höfðu markaðsráðandi stöðu í þessum iðnaði voru sýningar þeirra afar glæsilegar, eins og glöggt má sjá hér: www.detnews.com [07.11]


Íslenskur póstmaður á erlendri fornbílasíðu!

Það vakti athygli ritstjóra heimasíðunnar að sjá einkennisklæddan íslenskan póstmann á heimasíðu bandaríska Packard klúbbsins. Það rennur örugglega mörgum í grun hvaða mann er verið að tala um, en þeir sem vilja sjá þessa skemmtilegu mynd af Sigurbirni og fornbíl hans á glæsilegri heimasíðu Packardmanna er bent á þessa slóð: www.packardclub.org þar sem farið er inn á „showroom“ og „automobiles 1955“ (mynd 32). Neðst í kaflanum „old family photos“ er síðan mynd af forsetaPackard Ásgeirs Ásgeirssonar. [05.11]


Þar sem einu sinni...

„Þar sem einu sinni voru framleiddir margir af glæsilegustu bílum heims fyrirfinnast í dag flestar brotnar rúður heims og þar sem einu sinni streymdu út þúsundir gljáfægðra bíla er nú kirkjugarður stolinna bíla og vettvangur veggjakrotara“. Þennan texta má finna í nýrri myndasyrpu um Packard bílasmiðjurnar sálugu í Detroit sem nú bíða örlaga sinna. http://detroityes.com/ [04.11]


Flott fornbílasafn á Florida

Árlega leggja fjölmargir Íslendingar leið sína til Florida og þar gefur að líta fjölmarga fornbíla og söfn sem tengjast þeim. Við 1527 Packard Avenue Í Fort Lauderdale er fornbílasafn tileinkað Packard og er þar að finna 22 slíka sem framleiddir voru á árunum 1900 til 1940. Stærð safnsins er áþekk því sem Fornbílaklúbburinn hyggst reisa og er gott fordæmi varðandi glæsileika, því magn er ekki alltaf sama og gæði! Þeir sem vilja kíkja á safnið hér á netinu er bent á meðfylgjandi slóð, en hún inniheldur fjölda ljósmynda og „virtual tour“ sem er einskonar kvikmynd af safninu: www.antiquecarmuseum.org [01.11]