Eldri fréttir - Október 2002

Lærðu að keyra...eins og gömul kona!

Þessi skemmtilega ábending barst heimasíðunni og er hin markverðasta lesning, enda eru vítin til að varast þau. [30.10]


Viðurkenningar á opna húsinu í kvöld

Í kvöld verða afhentar viðurkenningar til þeirra fornbílaklúbbsfélaga sem mættu í átta ferðir eða fleiri á nýliðnu sumri. Samtals náðu 19 félagar þeim góða árangri og fá þeir að launum glæsilegan verðlaunapening. Þeir sem náðu gullviðurkenningu eru Árni Páll Ársælsson, Davíð Hansson, Jens Kristján Jensson, Rúnar Sigurjónsson og Sævar Pétursson. Handhafar silfurviðurkenninga eru Flóvent og Nína, Jóhann Árnason, Steingrímur E. Snorrason, Örn Sigurðsson, Árni og Guðný, Gunnar B. Pálsson, Hans Gíslason, Jón S. Loftsson, Sigurbjörn Helgason, Sigurður Sigtryggsson og Þórður Sveinsson. Bronsviðurkenningu hljóta Guðbjartur Sigurðsson, Hilmar Kristjánsson og Hróbjartur Örn Guðmundsson. Þessir aðilar eru beðnir um að mæta á opna húsinu í kvöld og taka á móti viðurkenningum úr hendi ferðanefndarmanna. [30.10]


Allt frá forngripum til kraftatækja

Veðrið lék við fornbílamenn á sýningu Veteran Motor Car Club of America, sem haldin var nýlega í Blossom Heath garðinum í Michigan ríki. Þar gat að líta mikið úrval fornbíla allt frá þeim elstu á tréhjólunum til kraftabíla sjöunda áratugsins. Flestir voru þó afar venjulegir alþýðufornbílar eins og við eigum að venjast þeim! Góð grein og glæsileg myndamappa hér: www.detnews.com [29.10]


Víða leynast falir fornbílar

Nú er hægt að velja um fornbíla í ólíklegustu löndum á meðfylgjandi heimasíðu. Það er vissara að fara að líta í kringum sig ef hérlend stjórnvöld láta til leiðast og lækka aðflutningsgjöld fornbíla, eins og stjórn klúbbsins hefur farið fram á. Niðurfelling vörugjalds myndi lækka gjöldin um rúmlega helming og það mun örugglega ráða úrslitum hjá mörgum áhugasömum fornbílamanninum. [28.10]


Hið eina sanna fornbílarall

Í gær var eilítið rætt um breska fornbílaklúbbinn og aðaldagskrárlið hans um árabil, sem er rallið milli London og Brighton, en það fer að þessu sinni fram 3. nóvember nk. Með þessari árlegu keppni minnast Bretar þess merka viðburðar þegar hraðatakmörkum sjálfrennireiða var lyft úr 6 km á klukkustund upp í heila 22 km, en það gerðist í nóvember árið 1896. Keppnin er opin fyrir öll velknúin ökutæki sem smíðuð voru fyrir janúar 1905. [24.10]


Breski fornbílaklúbburinn

Það eru víðar aktívir fornbílaklúbbar en á þessu skéri. Breski fornbílaklúbburinn er gamalgróinn og nú styttist í aðaldagskrá þeirra, sem er hið árlega fornbílarallý milli London og Brighton. Yngstu leyfilegu keppnisbílar eru af árgerð 1904 og er því útlit fyrir að fáir íslenskir fornbílar mæti til leiks: www.vccofgb.co.uk [23.10]


Bretabílar í Sterling Heights

Ein merkilegasta sýning haustsins í vesturheimi er án efa Battle of the Brits, þar sem einvörðungu eru sýndir breskir fornbílar og vélhjól. Bresk bílaframleiðsla á sér langa hefð og allir þekkja bíla eins og Daimler, Austin, Rolls-Royce, Humber, Riley, Singer og Rover, svo nokkur dæmi séu tekin. Bretasýningin í Sterling Heights í Michiganríki var nýverið haldin í tuttugasta sinn og mættu fjölmargir glæsilvagnar til leiks, sem lesa má um og skoða myndir af hér: www.detnews.com [22.10]


Engir fátækrafornbílar hér!

Fyrir skömmu var haldið uppboð á 50 glæsilegum og sjaldgæfum fornbílum á Waldorf Astoria hótelinu í New York. Óvenjulegasti bíll uppboðsins var 12 strokka Lagonda árgerð 1939, sem seldist á 220.000 dali. Það var þó ekki sölumet dagsins, því Ferrari SuperAmerica Coupe árgerð 1962 fór á 357.000 dali. Nánari texti og flottar myndir af glæsikerrunum hér: www.detnews.com.[18.10]


Heimildarkvikmyndir í pöntun

Heimildarkvikmynd um sögu japanskrar bílasmíði var fjölsótt í gærkvöldi og vakti töluverða athygli og umræður. Nú hefur félagatengslanefnd klúbbsins pantað nokkrar gæða heimildamyndir er snerta áhugamál okkar fornbílana, en ætlunin er að breyta eilítið kvikmyndakvöldum vetrarins. Í stað langra bíómynda verða teknar til sýninga um klukkustundar langar heimildarkvikmyndir, en með styttingu sýningartímans gefst félögum klúbbsins gott tækifæri til að spjalla sín á milli, bæði fyrir og eftir sýningu. [17.10]


Kraftalegur ´34 Ford á íslenskum vegum

Hann er óneitanlega nokkuð kraftalegur ´34 Fordinn sem Jón nokkur Trausti á og fjallað er um á spjallsíðu Kvartmíluklúbbsins þessa dagana. Þó margir fornbílamenn hafi ákveðnar efasemdir við útfærslur sem þessar, er því ekki að leyna að hér liggur að baki vandað handbragð, þó „original“ hugsjónin hafi vissulega ekki verið með í spilinu. Nú dæmir hver fyrir sig.[17.10]


Þeir elstu á sólskinsstund

Langlífasta fornbílasýning vestra er án efa The Old Car Festival í Greenfield Village en hún var nýverið haldin í 52 skiptið og nú í besta veðri frá upphafi. Sýningin er tileinkuð ungdómsskeiði bandaríska bílsins sem stóð frá 1896 til 1932. Þá hafði gripurinn slitið barnsskónum og við tók órólegt gelgjuskeið sem við þekkjum flestir af straumum og stefnum bílaframleiðslunnar á fjórða, fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Nánari upplýsingar og myndir hér: www.detnews.com [16.10]


Aftur heimsóknir á færiböndin

Ford verksmiðjurnar í útborginni Dearborn, nærri Detroit, ætla aftur að opna dyr sínar fyrir almenningi, en í gamla daga komu þangað árlega um 250.000 gestir til að skoða verksmiðjurnar og sjá samsetningarlínuna. Er þetta liður í átaki að fjölga ferðamönnum í Detroit og nágrenni, þar sem finna má ógrynni af minjum tengdum bílasögunni. Ætlunin er að setja upp sérstakar ferðir með leiðsögumönnum um borgina og eiga þær að draga að sér allt að 750.000 ferðamenn árlega fyrir árið 2010. Ritstjóri heimasíðunnar hefur tvívegis heimsótt bílaborgina og í seinna skiptið þurfti hann sjálfur að vera leiðsögumaður fyrir tíu manna hópi íslenskra fornbílamanna. Vegna reynslu sinnar frá fyrri heimsókninni gat hann meðal annars fundið Packardverksmiðjurnar og hinar frægu T-Ford verksmiðjur. Nú verða þessar tvær bílasmiðjur miðpunktur í ferðamannaáætlun Detroitborgar, ásamt Fordverksmiðjunum við River Rouge og safni þeirra í Greenwich Village. Nánari umfjöllun og gamlar ljósmyndir hér: www.detnews.com [15.10]


Íslensk fornbílauppgerð á netinu

Netið er merkilegt fyrirbæri eins og allir vita og hefur opnað almenningi aðgang að hafsjó upplýsinga, útrýmt landamærum og fært menn með sömu áhugamál nær hvor öðrum. Sumir eru t.d. í betra sambandi við einstaklinga í Ameríku, en næstu nágranna sína! Gott dæmi um þetta er Rúnar Sigurjónsson fornbílamaður, sem hefur notfært sér þennan miðil vel og nú birtast reglulega á netinu myndir af honum og Ponton Benz hans af árgerð 1955 sem hann vinnur við að gera upp. Bíllinn á sér afar merkilega sögu, en hann var lengst af í eigu fatlaðrar konu í Reykjavík, Olgu Magnúsdóttur, og eru gamlar myndir af henni og bílnum á Ponton síðunni. Rúnar ætlar sér að heiðra minningu þessarar konu og gera bílinn upp 100% og verður verkinu örugglega lokið fyrir 50 ára afmæli bílsins. Þangað til getur heimsbyggðin öll fylgst með uppgerðinni á alþjóðlegu Ponton vefsíðunni: www.mbzponton.org og á íslensku Benzsíðunni. Sjón er sögu ríkari! [11.10]


Yfirbreiðslur fyrir fornbíla!

Félagi í Fornbílaklúbbnum, Jón S. Loftsson, er nýbyrjaður að flytja inn vandaðar yfirbreiðslur fyrir bíla og vélhjól. Um er að ræða nokkrar gerðir af yfirbreiðslum, til nota innanhús eða utan. Einnig má sérpanta klæðskérasniðnar yfirbreiðslur eða jeppayfirbreiðslur. Ritstjóri heimasíðunnar hefur persónulega reynslu af því að nota yfirbreiðslu yfir fornbíl og fullyrðir að slíkt sé alger nauðsyn. Hún hlífir bílnum gegn ryki og öðrum óhreinindum, og hindrar að óþarfa nudd valdi lakkskemmdum. Erlendir fornbílasérfræðingar ganga svo langt að kalla menn sóða sem ekki nota yfirbreiðslur fyrir fornbíla sína og líkja því við að menn nenni ekki að hirða í sér tennurnar. Það endar náttúrulega með því að bíllinn þarf á sprautuverkstæði meðan eigandinn lætur smíða upp í sig falskar! Jón S. Loftsson er búinn að setja upp vandaða heimasíðu með nánari upplýsingum um yfirbreiðslurnar ásamt verðum, en félagar í Fornbílaklúbbnum fá auka afslátt hjá Jóni. [10.10]


Klúbbfélagar á Hershey

Tíu félagar Fornbílaklúbbsins eru núna vestur í Pennsylvaníuríki á Hershey sýningunni frægu og samkvæmt nýjustu veðurlýsingum eru þeir í þrifalegasta veðri. Meðal ferðalanganna eru eilífðargestirnir Sævar Pétursson, Þórður Sveinsson og Rudolf Kristinsson, en þeir hafa sótt sýninguna oftar og lengur en elstu menn reyna að muna. Þeir sem vilja sjá myndir frá Hershey geta litið á slóð bandaríska fornbílaklúbbsins AACA, þar sem meðal annars er að finna kort af hinu gríðarlega stóra sýningarsvæði. Að sögn ofangreindra sýningargesta þurfa menn að ganga allt að 20 km á dag í fimm daga til að eiga möguleika á að fínkemba allt svæðið, skoða alla fornbílana og allt varahlutagóssið. Þrátt fyrir slíka líkamsrækt hefur ritstjóri heimasíðunnar persónulega reynslu að því að í slíkum leiðangri þyngjast menn um nokkur kíló, einkum vegna veglegra veisluhalda bæði kvölds og morgna. Slóðin hjá AACA er: www.aaca.org [09.10]


Fornbílar streyma suður

Í síðustu viku flaug einn af félögum klúbbsins Gunnar Már Gunnarsson norður fyrir heiðar, keypti á afar góðu verði glæsilegan 8 strokka Mercedes Benz árgerð 1972 og ók honum suður á mettíma. Bíllinn, sem dvalið hafði á Húsavík í nokkur misseri, var auglýstur fyrir skömmu hér á heimasíðunni. Nú hefur annar Mercedes Benz frá Húsavík verið auglýstur á heimasíðunni, nýsprautaður 250 bíll árgerð 1972 í toppástandi. Verð hans er einungis 450.000 kr. og virðist á þessum dæmum að menn séu að koma niður á jörðina aftur í verðlagninu fornbíla. [08.10]


Jaguar 340, bíll Halldórs Laxness Jaguar 340, bíll Halldórs Laxness Jaguar 340, bíll Halldórs Laxness
Fornbíll ríkisins í geymslur klúbbsins

Eins og greint var frá á fréttasíðu heimasíðunnar 24. júní sl. þá keypti íslenska ríkið Jagúar bíl Halldórs Laxness samhliða því sem Gljúfrasteinn var keyptur. Fyrir tveimur vikum fékk formaður Fornbílaklúbbsins það verkefni að koma bílnum í ökuhæft ástand, sem framkvæmt var af klúbbfélaganum og Jagúarsérfræðingnum Sævari Hallgrímssyni, sem rekur fyrirtækið „Sævar, bíla og bátarafmagn“ á Seltjarnarnesi. Eftir góða yfirhollningu hjá Sævari var bílnum síðan reynsluekið um götur borgarinnar á laugardaginn, ökumanni og öðrum vegfarendum til mikillar ánægju. Í gær var bílnum síðan ekið í geymslur klúbbsins þar sem hann mun dvelja fram til næsta vors. Ætlunin er að hann standi við Gljúfrastein næsta sumar, sem hluti af sýningu um Nóbelsskáldið góða. [07.10]


Haustsýningarnar hafnar

Nú styttist í að árlegur hópur íslenskra fornbílamanna taki stefnuna á Hershey fornbílasýninguna í Pennsylvaníuríki, enda er tími haustsýninganna vestra hafinn. Meira en 150.000 bílaáhugamenn tóku stefnuna um síðustu helgi á Auburn í Indianaríki og tóku þátt í fornbílauppboði Kruse International, sem haldið er á 160 hektara svæði í eigu uppboðsfyrirtækisins. Þar kenndi margra grasa, allt frá alþýðubílum upp í Batmanbíla. Sölumet sýningarinnar var endurgerður Tucker 48 frá Ida fyrirtækinu, sem fjallað var um hér á heimasíðunni síðasta föstudag. Var hann seldur á 125.000 dollara. Hærri tilboð voru þó gerð í ýmsa aðra bíla, sem dugðu þó ekki til að eigendurnir létu þá af hendi. Nánari upplýsingar og fínar myndir hér: www.detnews.com [04.10]


Franklin í heila öld

Framleiðsla Franklin bíla hófst í borginni Syracuse í New York ríki fyrir sléttum 100 árum og af því tilefni komu 150 bílar þeirrar gerðar saman á fæðingarstaðnum, en aldrei hafa svo margir Franklinbílar hópast saman á einum stað síðan framleiðslan leið undir lok árið 1934. Upphafsmaður Franklinbílanna var John Wilkinson, en hann fann upp loftkældu vélina árið 1901 og voru Franklin bílarnir alla tíð loftkældir. Þetta voru dýrir bílar í flokki lúxusbíla og varð verksmiðjan fljótlega kreppunni að bráð. Klúbbur Franklin eigenda var stofnaður árið 1951 og telur nú 850 félagsmenn. Meira efni og myndir hér: www.detnews.com [01.10]