Eldri fréttir - September 2002

Fornbílatryggingarnar nýju

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir skömmu þá er kominn nýr valkostur í tryggingamálum, Íslandstrygging hf, sem meðal annars býður fast 12.000 kr. gjald fyrir fornbíla. Fjöldi Fornbílaklúbbsfélaga hefur nýtt sér þetta tilboð og flutt tryggingar sínar í heilu lagi yfir til Íslandstryggingar. Þeir sem enn eru að velta vöngum yfir þessu góða tilboði geta kynnt sér hið nýja félag á meðfylgjandi heimasíðu: http://www.islandstrygging.is [30.09]


Tucker afturgenginn

Kvikmynd síðasta miðvikudagskvölds fjallaði um Preston Tucker og byltingarkenndan bíl hans, sem því miður var ekki framleiddur nema í 51 eintaki. Nú er smíði hafin á 51 bíl til viðbótar. Athafnamaðurinn heitir Robert Ida, en afi hans var á sínum tíma umboðsmaður Tucker bíla í New York. Nýi bíllinn kostar litla 150.000 dollara, en gangverð fyrir upprunanlegan Tucker er tvölfalt hærra. Þess má geta að nýi bíllinn var frumsýndur fyrir tveimur árum í Ypsilantiborg nærri Detroit, en þar bjó forðum Preston Tucker, og afhjúpaði sonarsonur hans gripinn. Myndir af bílnum og skemmtileg helgarlesning hér: www.idaautomotive.com  www.detnews.com   www.hfmgv.org[27.09]


Koppakóngurinn fimmtugur Koppakóngurinn fimmtugur Koppakóngurinn fimmtugur Koppakóngurinn fimmtugur
Koppasalinn heiðraður

Eins og fram kom í fréttum í gær var Valdi koppasali fimmtugur og af því tilefni var smá kaffisamsæti honum til heiðurs í félagsheimili Fornbílaklúbbsins. Fékk Valdi forláta vindlaöskju að gjöf frá Fornbílaklúbbnum, en eins og allir vita er Valdi mikill vindlareykingamaður og kemur því gjöfin í góðar þarfir. Vindlaaskjan væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hún er búin til úr Chevrolet pallbíl árgerð 1946 í mælikvarða 1:18, en í skúffu hans er úrvalsgeymsla fyrir góða vindla. Auk þess komu athafnabræðurnir Halldór og Einar Gíslasynir með tvo bjórkassa og færðu afmælisbarninu, en gestir kvöldsins nutu góðs af! [26.09]


Valdi koppasali fimmtugur!

Í dag 25. september verður enginn annar en Þorvaldur Norðdahl á Hólmi við Geitháls fimmtugur að aldri. Flestir þekkja þennan dreng undir nafninu „Valdi koppasali“, en þau merku viðskipti hefur hann stundað frá barnsaldri. Fyrsta koppinn fann Valdi tíu ára gamall, en sá var undan ´55 Benz. Eftir það var ekki aftur snúið og hefur Valdi nú byggt upp gríðarlegt hjólkoppasafn, auk þess sem hann hefur höndlað með þúsundir þeirra á þessum 40 árum síðan viðskiptin hófust. Félagar í Fornbílaklúbbnum munu drekka kaffi með Valda í kvöld í félagsheimilinu Skeifunni 11 og þegar hlé verður gerð á kvikmynd kvöldsins munu stjórnarmenn afhenda honum smá viðurkenningarvott. [25.09]


Frá sýningu í Ræsi á Þýskum dögum Frá sýningu í Ræsi á Þýskum dögum Frá sýningu í Ræsi á Þýskum dögum Frá sýningu í Ræsi á Þýskum dögum
FornBenzar á afmælissýningu

Um helgina hélt bílaumboðið Ræsir upp á 50 ára viðskiptaafmæli Íslands og Þýskalands. Nýjustu eðalvagnarnir voru sýndir innandyra, en úti voru sýndir átta Benzar í aldursröð, sá elsti frá árinu 1956. Það vakti athygli að Ræsir var eina bifreiðaumboðið sem minntist þessara tímamóta, en umboðið sem reið á vaðið í innflutningi Volkswagenbíla frá Þýskalandi árið 1952, Hekla, lét það ógert ásamt Opel og BMW höndlurum. Var Ræsir því bílamönnum til mikils sóma um helgina og á þakkir skyldar. [24.09]


Nokkur orð um fagmannlegar fjárfestingar!

Þessi tímabæra föstudagshugvekja barst frá einum ágætum fornbílamanni: „Flest vitum við hvernig íslenski hlutabréfamarkaðurinn er orðinn og reynsla okkar af kaupum í Decode er orðin heimsfræg. Sá sem keypti bréf í því „ágæta“ fyrirtæki fyrir 100.000 kr. á genginu 50 fengi í dag 3600 kr. fyrir þessi sömu bréf. Vesturheimsku kálfarnir eru litlu betri í þessum efnum eins og fram kemur á þessum skemmtilega samanburði: 100.000 króna hlutur í Nortel fyrirtækinu er nú fallinn niður í 4900 krónur. Jafn hár hlutur í Enron er fallinn í 1650 krónur og hjá Worldcom í 500 krónur. Sá sem kaupir sér bjór í ríkinu fyrir 100.000 krónur og skilar síðan tómu dósunum fær 5400 krónur til baka. Því er besta fjárfestingin að auka öldrykkjuna til muna og stunda endurvinnslu. [20.09]


Afmælisbörn á stórsýningu

Um þessar mundir fagna kollegar okkar í vesturheimi 100 ára afmæli Cadillac og 50 ára afmæli Corvettunnar. Þessar tvær tegundir einkenndu hið nýafstaðna Concours d'Elegance í Meadow Brook Hall, sem löngum hefur verið talin ein af þremur bestu fornbílasýningum heims ásamt Pebble Beach í Kaliforníu og Parísarsýningunni. Með meðfylgjandi grein fylgir mappa með nærri 100 myndum af stórglæsilegum bílum. Eitthvað gott til að ylja sér með í haustrigningum helgarinnar. [20.09]


Varahlutir í fornbíla

Þeir sem voru svo ólánsamir að finna ekki varahluti í fornbílinn sinn á síðasta varahlutamarkaði klúbbsins þurfa kannski ekki að örvænta. Hér eru tvö fyrirtæki sem sérhæfa sig í varahlutum fyrir fornbíla: www.hirschauto.com og www.ynzyesterdaysparts.com. [19.09]


Lesabre draumabíllinn

Í gær var minnst á yfirmann hönnunardeildar GM, Harley Earl, en hann átti meðal annars heiðurinn að draumabílnum LeSabre sem smíðaður var árið 1950. Earl lét þó ekki einungis nægja að hanna þennan bíl, heldur brúkaði hann sem sinn einkabíl. Ók honum til og frá vinnu, samtals rúmlega 70.000 km, auk þess sem gripurinn sást reglulega við golfklúbbinn í Detroit. Þetta var fyrsti bíllinn með sveigða framrúðu og blæjutoppurinn fór sjálfkrafa á þegar byrjaði að rigna. Fræg er sú saga þegar léttadrengur í golfklúbbnum fékk sér gúlsopa af vatni og spýtti inn í bílinn til að sýna vinum sínum hvernig græjan virkaði! Undir húddinu er sjaldgæf vél, 215 kúbika (aðeins 3,5 lítra!!) háþrýst V-8 vél sem skilaði 335 hestöflum. Vélin gengur fyrir venjulegu bensíni fram að 4500 snúningum, en eftir það fær hún hreint alkóhól, sem gaf bílnum (og Earl) þann kraft sem þurfti! Nánari upplýsingar og myndir hér: www.detnews.com [18.09]


Það er ekkert annað !!!
Íslenskir fornbílar vekja heimsathygli!

Ljósmynd Rúnars Sigurjónssonar af Hudson bíl Ársæls Árnasonar á leið yfir lækjarsprænu í langferðinni síðasta sumar hefur vakið athygli vestur í Bandaríkjunum. Forsvarsmenn Hudson-klúbbsins hafa væntanlega verið að skoða hina mjög svo vel sóttu heimasíðu Fornbílaklúbbsins og rekist þar á þessa skemmtilegu mynd, sem sennilega er einstök, sé tekið tillit til akstursaðstæðna og aksturslags. Það er ekki á hverjum degi sem menn sjá fornbíla við þessar aðstæður og af þeim sökum hafa Hudson menn fengið myndina lánaða til birtingar í blöðum ytra og má reikna með því að margir fornbílamenn vestra eigi eftir að gapa af undrun á næstunni! [17.09]


Harley Earl afurgenginn

Þekktasti bílahönnuður GM var án efa Harley Earl (1893-1969), en hann var yfirmaður Art and Colour deildarinnar frá 1927 til 1958. Eftir hann liggja snilldarverk eins og LaSalle 1927 og hugmyndabílarnir Buick Y-Job 1938 og LeSabre frá 1950, sem hann notaði lengi sem einkabíl. Núna hefur Buick gert fimm auglýsingar sem sýna Earl afturgenginn vera að skoða og hrósa nýjustu afurðum deildarinnar, en með þessu draugaatriði á greinilega að bæta ímynd deildarinnar. Earl þótti sérstakur maður, hávaxinn (194 cm) og ráðríkur, en ávallt fínn í tauinu, enda átti hann 100.000 jakkaföt! Lesið nánar um málið hér: www.detnews.com [17.09]


Síðasta draumakeyrsla sumarsins

Það eru fleiri en við hér á Fróni sem eru að enda ánægjuleg fornbílasumur. Kollegar okkar í bílaborginni Detroit hafa verið iðnir við kolann í sumar og tóku nýlega eina góða keyrslu í björtu veðri. Fornbíla dagsins má sjá í meðfylgjandi grein og myndamöppu: www.detnews.com [16.09]


Þeir allra glæsilegustu!

Níunda Meadow Brook fornbílauppboðið er nýlega afstaðið vestra og þar voru 82 glæsikerrur til sölu, en aðeins 40 þeirra skiptu um eigendur. Stærsta sala dagsins var 770.000 $ fyrir Duesenberg árgerð 1929, en hæsta tilboðið var 1.050.000 $ í Mercedes Benz 540 K árgerð 1938, en eigandanum þótti sú tala ekki viðunandi. Með meðfylgjandi grein fylgir glæsileg myndamappa með 51 mynd og ég held að flestir geti verið sammála um glæsileika þessara bíla: www.detnews.com [13.09]


Frábær kaup á Detroit sýningu

Það er enn hægt að fá fornbíla á kristilegu verði vestra eins og sjá má glöggt í meðfylgjandi grein. Sem dæmi um einstakt verðlag má nefna 1.300 dali fyrir Lincoln 1950, 1.600 dali fyrir Thunderbird 1965, 3.200 dali fyrir Chrysler New Yorker 1954 og 4,900 dali fyrir Buick 1935! Þrátt fyrir lágt verð eru allir þessir bílar í fínu ásigkomulagi eins og glöggt sést í geininni og 49 mynda möppunni og ljóst að þarna hafa margir gert sannkölluð reifarakaup: www.detnews.com [12.09]


Útvarp í fornbíla

Vantar þig útvarp í fornbílinn með réttu útliti? Hér er fyrirtæki sem sérhæfir sig í slíkum tækjum: www.soundmove.com [11.09]


Ný merki á fornbílinn

Margir sem gert hafa upp fornbíla standa frammi fyrir því að fá ekki rétt merki á þá. Hér er fyrirtæki sem sérhæfir sig í uppgerð og endurgerð merkja á fornbíla: www.emblemagic.com [11.09]


Öryggisbelti í fornbíla

Heimasíðan hefur fengið upplýsingar um aðila sem framleiðir og selur öryggisbelti í fornbíla. Í flestum tilfellum er að ræða tveggja punkta belti, sem nægja til að halda ökumanni og farþegum innandyra ef illa fer, en því miður voru alvarlegustu slysin hér í gamla daga þegar fólk féll út úr bílunum í veltu eða ákeyrslu og lenti undir þeim. Í vetur verða umræður um þessi mál hjá Fornbílaklúbbnum, en eins og allir vita er umferðin farin að taka ískyggilegan toll í formi mannslífa og nú er bara spurning hvað við fornbílamenn getum haldið okkur lengi frá þeim óhugnaði. Slóðin að öryggibeltum fyrir fornbíla er: www.andoauto.com [10.09]


Vel heppnuð fornbílahelgi

Fornbílamenn gerðu víðreist um helgina, enda veðrið til þess. Fjöldi fornbíla fóru til Keflavíkur á ljósnótt og vöktu verðskuldaða athygli. Um kvöldið var haldin mikil grillveisla í garðinum hjá Magnúsi og Jóhönnu og heppnaðist hún með miklum ágætum. Í gær var mikill fjöldi fornbílamanna á varahlutamarkaði klúbbsins við Esjumel, þar sem haldin var vöffluveisla. [09.09]


Draumakrúsið!

Hið árlega Dream Cruise í Detroit, þar sem ekið er suður hið mjög svo langa Woodward breiðstræti, er nýliðið og mættu margir fallegir og „eðlilegir“ fornbílar til leiks. Á morgun fara íslenskir fornbílamenn álíka vegalengd frá Reykjavík suður til Keflavíkur og taka þátt í ljósanótt. Allt stefnir í að við verðum jafn heppnir með veðrið og kollegar okkar í bílaborginni: www.detnews.com[06.09]


Oldcar heimasíða

Ónefndur íslenskur fornbíla- og Chevroletmaður hefur sett upp heimasíðu með heitinu Oldcar og hefur sett þar inn eitt og annað sem tengist áhugamálinu. Þar á meðal eru nokkrar skemmtilegar ljósmyndir sem sennilega voru teknar á síðustu Daytona sýningu vestra, en næsta sýning á þeim slóðum verður í lok nóvember nk., eins og lesa má um á heimasíðunni. Það er hins vegar ágætis tilmæli að menn haldi sig við ylhýra málið og sleppi slettum eins og Oldcar og Oldtimer, en þau orð heyrast stundum. Besta orðið er að sjálfsögðu hið alíslenska orð fornbíll. Hér er hins vegar slóðin að ofangreindri heimasíðu: www.islandia.is/oldcar/. [06.09]


Fornbílasalan í Svörtubrekku

Black Hill Antique Auto heitir fornbílasala í Wyomingríki sem Sigurbjörn Helgason hefur sent heimasíðunni vísbendingar um. Þetta ágæta fyrirtæki virðist einbeita sér að sölu frekar lasinna bíla á góðu verði ásamt bílum til niðurrifs, sem gæti hentað gæti vel íslenskum fornbílamönnum, sem oftar en ekki eru að gera upp mikla ryðjálka. Slóðin er: www.bhantiqueauto.com [05.09]


Lægri fornbílatryggingar!

Formaður klúbbsins hefur á liðnum misserum fundað með forsvarsmönnum tryggingafélaga vegna óhóflegra fornbílatrygginga sem hækkað hafa mikið á liðnum árum. Alvarleg fákeppni milli þessara aðila hefur hins vegar komið í veg fyrir áhuga þeirra til lækkunar. Nú er hins vegar komið til skjalanna nýtt tryggingafélag, Íslandstrygging hf, sem Fornbílaklúbburinn hefur samið við fyrir hönd allra félagsmanna. Býður Íslandstrygging fornbílamönnum 12.000 kr. fast iðgjald fyrir alla fornbíla, en skilyrði er að menn komi einnig með brúksbílinn og eina aðra tryggingu til félagsins (t.d. heimilistryggingu), en það býður almennt hagstæðari tryggingar en þekkist á markaðnum. Formaður klúbbsins gekk persónulega að þessu tilboði og lækkaði tryggingariðgjöld af bílum sínum og fasteignum um ásættanlega upphæð. Fornbílamenn eru hvattir til að eiga viðskipti við þá sem þekkja okkar þarfir og lækka iðgjöld á fornbílnum í samræmi við notkun og snúa sér til Íslandstryggingar, Sætúni 8 (s.514-1000) og taka félagsskírteinið með sér. [03.09] 


Óforsjálir stjórnendur!

Það er annars merkilegt hvað bráðsnjallir menn geta misst jarðsambandið þegar þeir hafa áorkað einhverju umfram aðra. Það mun hafa verið forboði hrunsins hjá Chrysler þegar stjórnandi þess, K.T. Keller, sem sagt var að svæfi með hattinn á höfðinu, gaf eftirfarandi yfirlýsingu þegar hann var spurður 1949 hvort Chrysler ætlaði ekki að framleiða lægra byggða straumlínulaga bíla eins og hinir: ,,Við smíðum bíla til að sitja í en ekki til að míga yfir“. Þannig fór fyrir Jim Packard: Hann setti sig upp á móti því árið 1901 að vél með fleiri en einn strokk yrði framleidd fyrir Packard með þeim orðum ,, að vél með fleiri en einum strokk í Packard yrði eins og tvö skott á ketti - engin þörf væri fyrir slíkt.“ Eins og aðrir íhaldssamir uppfinnarar þurfti Jim Packard að beygja sig fyrir þróuninni og fyrsti 4ra strokka Packardinn kom á markaðinn 1903. Ég má til með að geta eins svona tilfellis, sem stundum er sagt að hafi verið ein mestu mistök viðskiptasögunnar, - þegar fjármálajöfurinn J.P. Morgan hljóp rækilega á sig með því að afgreiða Alexander Graham Bell og símann hans með þeim orðum að svona tæki myndi aldrei koma að neinu gagni í viðskiptum! (Tekið úr merkilegri grein Leó M. Jónssonar um Packard) [02.09]