Eldri fréttir - Ágúst 2002

Áhugaverð grein um Packard

Á heimasíðu Leó M. Jónssonar er að finna nýja og merkilega grein um Packard, sem eins og flestir fornbílamenn vita framleiddi marga af merkustu bílum síns tíma, þ.á.m. íslenska forsetabíla. Í greininni er að finna upplýsingar og myndir um hérlenda Packardbíla, m.a. bíl Sigurbjörns Helgasonar sem áður var í eigu Þorbjarnar kjötkaupmanns í Borg. [30.08]


Er eitthvað amerískara en HardTop?

„Blæjubílar voru snemma án rúðupósta á hliðunum. En póstalausir bílar með stálþaki komust í tísku um miðja síðustu öld og síðan er fyrirbærið HardTop eins amerískt og „júkboxið“ en bæði settu svip á menningu síns tíma“. Með þessum orðum hefst áhugaverð grein eftir Leó M. Jónsson „bílfræðing“ um fyrirbærið HardTop á heimasíðu hans og eru fornbílamenn hvattir til að lesa þessi ágætu fræði um eina af merkilegri yfirbyggingum bílasögunnar. [29.08]


Ljósmyndir frá landsmóti

Landsmót Fornbílaklúbbsins var haldið við hótel Bjarkalund helgina 10. til 11. ágúst. Þar báru hæst heimsóknir að fornbílabænum Seljanesi og til Jóns æðarbónda Sveinssonar. Guðmundur fornbílabóndi á Grund keypti nýverið hótelið, sem að sjálfsögðu fylltist af fornbílamönnum, svo og nærliggjandi tjaldstæði, þar sem samkomutjald klúbbsins var reist. Nú er búið að setja nokkrar ljósmyndir frá mótinu inn í myndakafla heimasíðunnar, þar sem glöggt má sjá hresst fornbílafólk á ferð við ysta haf. [28.08]


Kanadamenn í fornbílahug

Frændur okkar í Kanada minntust nýverið bílaframleiðslu sinnar, sem löngum hefur verið í skugganum af nágrannanum stóra í suðri. Kanadamenn áttu þó sína góðu daga og þá fór fremstur MacLaughlin Bjúkkinn sem framleiddur var í Oshawa í Ontariofylki, sem er bílaborg þeirra norðanmanna. Svo vel vill til að ritstjóri heimasíðunnar heimsótti þessa ágætu borg fyrir einum 11 árum síðan og skoðaði bráðskemmtilegt bílasafn þeirra heimamanna. Hér er hins vegar ágæt grein um kanadíska fornbílamenn ásamt skemmtilegum myndum. [27.08]


Góður fatadagur

Árlegur fatadagur Fornbílaklúbbsins var haldinn á laugardaginn og heppnaðist með miklum ágætum. Fjöldi fornbíla og skartbúinna ökumanna hélt austur fyrir fjall í mikilli þoku sem létti í Kömbum og breyttist síðan í sólskin á Selfossi. Þar tóku fornbílafélagar á móti hópnum og sýndu þeim m.a. nýbyggt safnhús Sverris Andréssonar. Þaðan var haldið austur til fornbílamannsins Ingjaldar í Ferjunesi og síðan ekið um Flóavegi að Stokkseyri og Eyrarbakka, með viðkomu á þremur söfnum, og endað í góðum kvöldverði. Þótti flestum þessi fatadagur hafa tekist einstaklega vel, enda veður gott og móttökur heimamanna einstakar. Vonandi birtast myndir frá þessari ferð áður en langt um líður hér á heimasíðunni, en því miður skrópuðu stafrænu myndasmiðirnir, þannig að bíða verður eftir framköllun og skönnun á pappírsmyndum [26.08]


Tíu verstu bílarnir

Heimasíðunni barst nýverið úrslit úr vali á tíu verstu bílum allra tíma. Það vekur athygli að allir þessir bílar voru framleiddir eftir 1960 þannig að eldri fornbílar hafa greinilega verið góðir bílar. Með hverjum bíl fylgja raunasögur sem eru afar skemmtilegar aflestrar. [19.08]


IB flytur inn fleiri fornbíla

IB bílasalan í fornbílabænum Selfossi hefur verið iðin við innflutning bíla frá Bandaríkjunum og nokkrir fornbílar hafa flotið með. Nýlega flutti IB inn glæsilegan Chrysler New Yorker árgerð 1958 sem er nú í eigu Edda í Skiptingu í Keflavík. Á meðfylgjandi heimasíðu er að finna ljósmyndir af bílum sem IB hefur futt inn og þar inn á milli eru glæsilegir fornbílar, m.a. fyrrnefndur Chrylser. [12.08]


Nýtt pústverkstæði fyrir fornbíla (og nýrri bíla)

Við Skemmuveginn í Kópavogi er búið að opna nýtt pústverkstæði, Pústviðgerðir hjá Einari, sem sérhæfir sig í sérsmíðuðum pústkerfum, meðal annars fyrir fornbíla. Er Einar með eina fullkomnustu rörabeygingarvél landsins, og með henni leikur hann sér að því að smíða flóknustu pústkerfi af öllum sverleikum undir allar gerðir bíla. Svo er þjónustan góð og verðið hagstætt. Staðsetningin er Skemmuvegur 50 (rauð gata) og síminn er 564-0950 eða 868-5006. [08.08]


Pontiac aðdáendur allra landa taki gleði sína á ný!

Nú geta gamlir Pontiac aðdáendur glaðst á ný, því svo virðist sem doðinn sé að fara af þessum forna kraftabílaframleiðanda. Eftir tæp tvö ár mun nýr GTO sjá dagsins ljós og verður hann síst glæsilegri en nafni hans og forveri sem byrjað var að framleiða fyrir tæpum 40 árum og entist í réttan áratug á markaði. Gamla geitin þótti spræk og sú nýja verður síst sprækari með 300 hesta undir húddinu. Hér er mynd og nánari upplýsingar um þennan framtíðar fornbíl. [02.08]