Eldri fréttir - Júlí 2002

Ljótu andarungarnir hittast!

Félagar í Airflow klúbbnum hittust um liðna helgi við Walter P. Chrysler safnið í Michigan. Airflow bílarnir frá Chrysler og DeSoto eru sögulegir bílar og taldir verkfræðilegt undur síns tíma, en kaupendunum líkaði hins vegar ekki útlit þeirra. Airflow klúbburinn heldur nú upp á 40 ára afmæli sitt, en hann var stofnaður árið 1962 og telur nú um 600 félaga, líkt og Fornbílaklúbbur Íslands. Nánari upplýsingar og glæsilegar ljósmyndir hér: http://detnews.com.[26.07]


Bílaleigufrumkvöðull heiðraður

Warren Avis, sem stofnaði Avis bílaleiguveldið, var á dögunum heiðraður hjá Automotive Hall of Fame í Dearborn fyrir brautryðjendastarf sitt. Hann var sá fyrsti til að bjóða nýja bíla á leigum sínum og sá fyrsti til að bjóða mönnum bílaleigubíla við flughafnir, en árið 1947 opnaði hann slík útibú á flugvöllunum í Willow Run og Miami. Warren Avis, sem er orðinn 86 ára gamall, stofnsetti fyrirtæki sitt með 85.000 dollara framlagi, en seldi það árið 1954 fyrir 8 milljónir dollara. Nánari upplýsingar og myndir hér: http://detnews.com. [24.07]


Castrol olíur fyrir fornbíla

Nú er hægt að nálgast réttu smurolíuna fyrir fornbílinn. Um er að ræða olíu af gerðinni Castrol 20-50W, en það er einmitt hárrétta blandan fyrir lágþrýstar fornbílavélar. Ásgeir hjá Poulsen Skeifunni 2 er með þessar olíur á lager og selur fornbílamönnum þær á heildsöluverði á antilk gallon brúsum, sem einir og sér eru sannkallaðir forngripir. [23.07]


Nýja samgönguminjasafnið opnað!

Nýja samgönguminjasafnið á Skógum undir Eyjafjöllum var opnað formlega á laugardaginn með viðhöfn í anda góðra sveitamanna, með miklum ræðuhöldum, kórsöng og kaffiveitingum. Er safnið allt hið gerðarlegasta,1500 fermetrar að stærð, með fjölda sýningargripa sem meðal annars hafa verið sóttir í geymslur Þjóðminjasafns og Vegagerðar. Samgönguráðherra opnaði sýninguna formlega og um tíu fornbílar í eigu félaga Fornbílaklúbbsins heiðruðu safnið með nærveru sinni þrátt fyrir að veðrið hefði mátt vera ögn betra. [22.07]


Glæsileg GM fornbílasýning í Flint

Þrítugasta árið í röð var haldin glæsileg fornbílasýning við Alfreð P. Sloan safnið í Flint í Michiganríki. Flint er heimaborg Buick bílsins, en Alfreð Sloan starfaði í 38 ár hjá GM, frá 1918 til 1956, þar af sem forstjóri frá 1923 og stjórnarformaður frá 1937. Á sjálfri afmælissýningunni var að sjálfsögðu mikill fjöldi glæsilegra fornbíla, eins og sjá má á meðfylgjandi grein og 40 mynda fornbílamöppu. [19.07]


Langferðin gengur vel

Ritstjóri heimasíðunnar hafði samband við ferðalanga í langferð klúbbsins um Suður- og Suðausturland. Að sögn Rúnars Sigurjónssonar formanns ferðanefndar gengur ferðin samkvæmt óskum og hefur veður verið gott, nema hvað upphafsdagurinn (laugardagurinn) var mjög slarksamur. Hefur hópurinn dvalið í Svínafelli í góðu yfirlæti, en heldur í dag austur að Höfn. Þar verður fornbílasýning á laugardaginn við safnið á staðnum. Á sunnudaginn verður haldið sömu leið til baka. [18.07]


Lengi lifir í gömlum glæðum!

Það er alltaf ánægjulegt að sjá gömlu fornbílamennina okkar í góðum gír. Einn af stofnfélögum klúbbsins, Þorsteinn Baldursson, hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu, keypt og selt fornbíla og skrifað merkar greinar í Morgunblaðið um okkar ágæta áhugamál. Nú hefur hann keypt óuppgerðan Ford árgerð 1934 af fyrsta formanni klúbbsins Jóhanni Björnssyni og hyggur á uppgerð. Hefur Þorsteinn óskað eftir V-8 flathead vél frá árabilinu 1934-40 og öllum öðrum mögulegum hlutum í ´34 Ford. Farsíminn hjá Þorsteini er 898-8577. Nú þarf Jóhann bara að taka til við sinn ´37 Ford og Rudolf gjaldkeri við sína gömlu, Buick ´26 og Cadillac ´38, en allir bíða þessir bílar óþreyjufullir eftir uppgerð. Það er greinilega gaman að vera eldri fornbílamaður! [17.07]


Fornbílaverkstæði brennur

Eins og fornbílamenn hafa heyrt í fréttum, þá brann verkstæðið hjá félaga okkar Stefáni Magnússyni á Seljanesi í Reykhólasveit í gær. Þeir sem komið hafa að Seljanesi vita að öll útihúsin höfðu verið lögð undir gamla bíla og viðgerðir á þeim og því er ljóst að tjónið er tilfinnanlegt. Stefáni til mikils láns þá var búið að taka fornbílana út vegna ættarmóts sem haldið var á bænum fyrir skömmu, þannig að ekki brunnu nema tveir forngripir inni, Austin Gipsy jeppi og Ferguson dráttarvél. Tjónið er samt tilfinnanlegt og fjölmargir fornbílar standa nú eftir húsnæðislausir. Félögum í fornbílaklúbbnum gefst kostur á að hitta Stefán og skoða brunastað á landsmóti klúbbsins sem haldið verður í Reykhólasveitinni helgina 9. til 11. ágúst. [16.07]


Prófunarbraut Packard breytt í íbúðasvæði

Ford fyrirtækið hefur tilkynnt áætlun sína um að breyta gamla tilraunasvæði Packard bílasmiðjanna nærri Utica í Michiganríki í íbúða- og útivistarsvæði. Packard keypti þetta land árið 1928 og gerði þar mikla tilraunabraut með öllum gerðum vega og vegleysa, m.a. til að prófa mismunandi fjöðrunarkerfi. Ford ætlar sér að minnast Packard á ýmsan hátt á þessu svæði, eins og fram kemur í þessari frétt [16.07]


Fornbílar streyma austur

Það eru ekki einungis bílar félagsmanna sem streyma austur um vegi landsins þessa dagana. Undanfarið hafa staðið yfir umtalsverðir flutningar á fornbílum úr geymslum Þjóðminjasafnins í Reykjavík og Kópavogi austur að Skógum undir Eyjafjöllum. Þar verður um næstu helgi formlega opnað gríðarmikið samgönguminjasafn og er uppistaðan í því safni fornbílar í eigu Þjóðminjasafnsins og tæki frá Vegagerðinni. Nú verður spennandi að sjá hvort að hinn sögufrægi Oldsmobile 1940, sem er eign Þjóðminjasafnins en hvarf sporlaust eftir sýninguna í Laugardalshöllinni 1999, skili sér austur á safnið! [15.07]


Fornbíll prófaður í nýjum tækjum

Chrysler verksmiðjurnar tóku í síðustu viku í gagnið nýja tæknimiðstöð sem kostaði litla þrjá milljarða króna. Hjarta þessarar miðstöðvar eru gríðarleg vindgöng og vindvél sem knúin er með 6300 hestafla mótor, en sjálfur vindgangurinn nær heilum 240 kílómetra hraða. Fyrsti bíllinn til að fá prófun í tækinu var Chrylser Airflow árgerð 1936, en ekki fylgir sögunni hvernig þessi fyrrum straumlínulagaði bíll kom út í samanburði við nýjustu árgerðir. Þess má geta að notkun vindganga hjá Chrysler er ekki ný bóla, því á þeim bæ voru fyrstu vindgöngin smíðum á þriðja áratugnum, en þau voru hönnuð af flugvélafrumkvöðlinum Orville Wright. Afkvæmi fyrstu tilrauna á loftflæði voru Chrysler og DeSoto Airflow sem smíðaðir voru um miðjan fjórða áratuginn. Nánar um nýju vindgöngin og mynd af þeim gamla: http://detnews.com [12.07]


Góður dagur í Árbæjarsafni

Það var bjartviðri og blíða sem tók á móti nokkrum tugum fornbílamanna þegar þeir birtust á glæsivögnum sínum í Árbæjarsafninu í gær. Veðurguðirnir brugðust að vísu um miðjan daginn þegar rigndi linnulaust í klukkutíma, en síðan braust blíðan á aftur. Eins og undangengin ár sýndi almenningur þessari árlegu uppákomu fornbílamanna og Árbæjarsafns töluverðan áhuga. Ljósmyndir frá deginum eru komnar í myndakafla heimasíðunnar. [08.07]


Ráðherrabíll kemur suður

Á miðvikudaginn var sagt frá dýrum bílum ársins 1955, þar sem 300 gerðin frá Benz sat á toppnum, en tveir slíkir voru keyptir hingað til lands og notaðir sem ráðherrabílar. Einn er ennþá til og hefur hann verið varðveittur í slæmu húsnæði norður í Aðaldal síðustu 20 árin. Nú hefur Björn Rúríksson ljósmyndari og hagfræðingur keypt þennan bíl og hyggst flytja hann suður á næstu vikum. Þar sem Björn er fjáður maður gera fornbílamenn sér góðar vonir um að hann láti gera bílinn upp af kostgæfni og færi hann aftur til fyrra ráðherraútlits. 300 bíllinn er verðmætur í dag og það mun kosta skildinginn að kaupa í hann þá varahluti sem til þarf. Þeir sem vilja kynna sér þessa glæsivagna nánar er bent á meðfylgjandi heimasíðu, en þar er mökkur af flottum bílamyndum: www.adenauer300.com [05.07]


Upphaflegir verðmiðar skoðaðir

Í gær var sagt frá því að Ford hyggist smíða 6 eintök af T-Ford árgerð 2003. Í meðfylgjandi frétt kom fram að upphaflegt verð á T-Fordinum hafi verið 825 dalir, sem samsvarar um 10.000 dölum í dag, eða um 900.000 kr. Nú hafa spekúlantar í Fornbílaklúbbnum kannað verðlagningu nokkra bíla árið 1955 til að átta sig á þeim hlutföllum sem að þá voru á milli tegunda. Nýir Fordar og Chevrolettar kostuðu um 90.000 kr., Mercedes Benz 180 kostaði 100.000 og 220 Benz kostaði 120.000 kr. Í flokki dýrari bíla má nefna Packard Clipper, en hann kostaði 140.000 kr, nýr Lincoln kostaði 180.000 kr. og Cadillac 195.000 kr. Á toppnum meðal dýrustu bíla ársins 1955 var svo Mercedes Benz 300, en hann kostaði heilar 210.000 kr. Þess má geta að ríkissjóður Íslands keypti tvo slíka gripi til landsins og notaði sem ráðherrabíla. [03.07]


Stórveisla undirbúin

Þann 16. júní á næsta ári verður 100 ára afmæli Ford verkmiðjanna fagnað með mikilli veislu í Greenwich Village í Dearborn, sem er útborg Detroit. Þar er gríðarmikið safn á 80 hektara svæði með mörg hundruð sögulegum byggingum, auk bílasafns. Veislan verður haldin í fimm daga, frá 12. til 16. júní og verður 250.000 manns boðið til leiks. Svæðinu verður lokað næsta vetur vegna endurbóta, en þar verða meðal annars smíðaðir 6 nýir T-Fordar (árgerð 2003) sem eiga að verða minnisvarðar þess bíls sem kom hjólunum undir Ameríku. Nánari lesning hér: http://detnews.com [02.07]