Eldri fréttir - Júní 2002

Bílar fluttir inn frá austrinu

Þær fréttir voru að berast ritstjóra heimasíðunnar að Björn nokkur Guðmundsson hafi fest kaup á forláta Pobedu austur í Rússlandi og hyggist flytja hana til Íslands við fyrsta tækifæri. Kaupverðið er 500 dollarar og þarf Björn að greiða 0,15% útflutngstoll af birfreiðinni, en ekki fylgdi sögunni hvort fyrrum ráðstjórnarmenn eru jafn grimmir aðflutningsgjaldamenn og kollegar þeirra í íslenska framsóknar-íhaldskerfinu sem við búum svo óþægilega við hér á skérinu. Björn vildi benda íslenskum fornbílamönnum að horfa örlítið minna í vestur og skoða frekar eftirfarandi heimasíðu. [28.06]


Öflugur viðsnúningur hjá Chrysler

Þjóðverjum í stjórnarliði Chrysler í Detroit hefur tekist hið ómögulega, að snúa samfelldu 18 mánaða bullandi tapi yfir í 111 milljón dollara hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2002. Þýska aðgerðin miðaði að öflugum niðurskurði og úthreinsun á stöðnuðu setuliði. Árangurinn er aukin skilvirkni og framleiðni sem leitt hefur af sér hagnað í stað taps. Nú er spurning hvort að nágrannarnir hjá Ford þurfi ekki aðstoð frá félögum sínum í Köln til að snúa sinni óheillaþróun við. Nánar um betra heilsufar hjá Chrysler hér: http://detnews.com . [26.06]


Þeir glæsilegustu af þeim glæsilegu!

Að mati fjölmargra fornbílamanna eru bílar framleiddir á árunum 1920-1940 þeir allra glæsilegustu. Fyrstu tíu árin einkenndust af mikilli uppsveiflu og velsæld og bílasala var afar góð. Síðan tóku kreppuárin við og bílasala drógst verulega saman, en eina von bílaframleiðenda var að vanda framleiðsluna og bæta útlitið eins og framar var kostur. Útkoman var áratugur glæsilegra bíla, eins og sjá má í meðfylgjandi grein sem tileinkuð er þessum bílum: http://detnews.com [25.06]


Ríkið kaupir fornbíl!

Íslenska ríkið er að hressast í fornbílamálunum, þó hægt gangi að fá það til að fella niður óvinsæl aðflutningsgjöld. Eins og flestum er kunnugt keypti ríkið Gljúfrastein af ekkju Halldórs Laxness og um daginn var Jagúar bíll skáldsins keyptur og mun hann flytja aftur heim á Gljúfrastein, sem verið er að gera að safni. Það er ánægjulegt að sjá hið opinbera opna augu sín fyrir varðveislu fornbíla og gildi þeirra fyrir menningarsögulegan arf þjóðarinnar! [24.06]


Munaðarlausir fornbílar á stórsýningu!

Nú er tími glæsilegustu fornbílasýninganna hafinn, jafnt hérlendis sem erlendis. Í Ypsilantiborg nærri Detroit var á dögunum haldin stórglæsileg sýning sem tileinkuð er bílategundum sem horfnar eru úr framleiðslu. Mættu 322 fornbílar til leiks og voru þeir elstu um 100 ára gamlir. Í Ypsilanti er Willow Run risaverksmiðjan þar sem Henry J Kaiser og Joseph Fraizer framleiddu samnefnda bíla frá árinu 1947 til 1953, en fyrsta árið runnu 144.500 eintök af færiböndunum hjá þeim félögum. Kaiser var reyndar þekktastur fyrir smíði Liberty raðskipanna á stríðsárunum, sem smíðuð voru svo hratt að Þjóðverjar gáfust upp á að sökkva þeim! Þó framleiðendur fornbílanna í meðfylgjandi grein hafi gefið upp öndina, eru þetta stórglæsilegir bílar, eins og glöggt má sjá í 74 mynda möppu. Sá bíll sem vann glæsileikaverðlaunin á sýningunni var Henry J árgerð 1952. http://detnews.com [21.06]


Vel heppnaður þjóðhátíðarakstur

Mikill fjöldi fornbíla mætti í þjóðhátíðaraksturinn í gær enda þokkalegasta veður meðan á akstri stóð. Fimmtíu bílar fóru um Laugaveginn eins og um var samið við lögreglu og tókst aksturinn vel eins og ráð var fyrir gert. Eru fornbílamenn afar ánægðir að hafa endurheimt gömlu akstursleiðina að nýju, þó svo að fleiri fornbílar hefðu að skaðlausu mátt fljóta með. Sýningin við miðbakkann tókst með miklum ágætum og voru þar um 80 fornbílar. Í myndakafla heimasíðunnar munu fljótlega birtast myndir frá hátíðinni sem teknar voru af Jóni S. Loftssyni. [18.06]


Laugavegurinn verður keyrður á 17. júní!!

Samningar hafa tekist milli stjórnar Fornbílaklúbbsins og lögreglunnar í Reykjavíkur um akstur fornbíla niður Laugaveginn á 17. júní. Eins og margir vita stóð til að banna fornbílum, þriðja árið í röð, að keyra þessa leið og voru fornbílamenn orðnir mjög þreyttir á haldlitlum rökum í málinu. Náðist samkomulag um það að 50 bílar keyra niður Laugaveginn, en bílar umfram það fara Hringbraut, Sóleyjargötu og Lækjargötu. Bílar eldri en árgerð 1940 eiga tryggan aðgang að Laugaveginum, svo framarlega sem þeir mæta fyrir hádegi við Kjarvalsstaði. Aðrir bílar skapa sér akstursrétt í samræmi við mætingu á staðinn og gildir hér gamla reglan: Fyrstir koma, fyrstir fá. Þeir sem eru með bilanagjarna bíla er bent á að halda sig frá Laugaveginum, því ef bílar bila þar mun leyfi til áframhaldandi aksturs um Laugaveginn falla niður. Til að fyrirbyggja öll hugsanlega leiðindi, verða fornbílar framvegis skráðir fyrirfram til aksturs um Laugaveginn. [14.06]


Þjóðhátíðarakstur í lögregluríkinu næsta mánudag!

Árlegur þjóðhátíðarakstur verður mánudaginn 17. júní og áætlað er að ekið verði frá Kjarvalsstöðum niður á miðbakka Reykjavíkurhafnar. Sem fyrr setti klúbburinn það skilyrði fyrir akstrinum að ekið yrði niður Laugaveginn. ÍTR tók vel í erindið, en nú sem fyrr hefur lögreglan amast við akstri fornbíla um Laugaveginn og þykir nú flestum að mælirinn sé að fyllast. Formaður klúbbsins hefur í höndunum vottorð frá Heilbrigðiseftirliti þess efnis að mengun frá akstri fornbíla hafi engin skaðvænleg áhrif á göngufólk, einkum ef litið er til þess að skrúðgangan leggur ekki af stað fyrr en hálftíma eftir að bílarnir eru farnir hjá. Hefur stjórn klúbbsins ekki sagt sitt síðasta í þessu máli, sem eflaust á eftir að lenda í blöðunum. Eins og fornbílamenn og aðrir hafa reyndar séð í fjölmiðlum á liðnum dögum, þá gengur lögreglunni afar vel að eyðileggja tiltrú almennings á löggæslunni í landinu, þar sem aðaláherslan er lögð á að hindra friðsöm mótmæli útlendinga, meðan alda glæpa- og ofbeldis rís stöðugt hærra í samfélaginu, án þess að nokkuð sé að gert! [13.06]


Af Jósef Stalín og Packard

Eftirfarandi fréttaskeyti barst heimasíðunni frá Lárusi Sigurðssyni: „Til hamingju með glæsilega heimasíðu, svo og ennþá glæsilegri afmælishátíð. Ég hef lesið fréttabréfið ykkar með mikilli ánægju og rekist á margt áhugavert. Ég sá t.d. frétt frá Hjalta Jóhannessyni að norðan þar sem hann var að fjalla um „austantjaldsbíla“ en saga þeirra er sjálfsagt mjög áhugaverð, ef maður þekkti hana alla!! Hjalti minntist á Packard, en þannig var að Josef Stalin var mjög hrifinn að Packard bílum eins og margir þjóðhöfðingjar á þeim tíma. Þegar framleiðslu var hætt á stærri bílunum og Clipper bíllinn kom árið 1942, hlutaðist Roosevelt forseti til um að framleiðslutækin voru send til Rússlands sem hluti af „lend-lease“ eða láns og leigukjörum. Þannig kom það til að Zil og Zim bílarnir eru nánast eins og gömlu Packard bílarnir með smávægilegum breytingum. Það væri nógu fróðlegt að athuga hvort varahlutir fást að austan í þessa bíla. Hefur eitthvað frést af forsetabílnum sem verið er að gera upp? Gaman væri að fá einhverjar fréttir af honum. Ég biðst afsökunar á málæðinu, mig langaði bara að þakka fyrir góða síðu og óska klúbbnum og félögum gæfu og gengis í framtíðinni. Bestu kveðjur. Lárus Sigurðsson (larus@holta.is) [12.06]


Annríki hjá fornbílamönnum um helgina

Það var nóg að snúast hjá fornbílamönnum um helgina, enda rættist vel úr veðrinu. Á föstudagskvöldið var farin menningarferð í Þjóðmenningarhúsið og í gær sunnudag var fornbílasýning í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardalnum. Fjöldi bíla tók þátt í menningarferðinni, sem endaði í kaffisamsæti á Kaffi Mílanó, og eru spánýjar ljósmyndir frá þessum viðburði komnar inn í myndakafla heimasíðunnar. Í gær kom síðan fjöldi fornbílamanna í blíðskaparveðri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og skemmtu þeir sér þar frítt fram eftir degi meðan fornbílarnir voru sýndir miðsvæðis. Reyndar hefðu fleiri fornbílar mátt mæta, enda óvæntur aukapunktur í boði frá ferðanefndinni! [10.06]


Tímamót í sögu brúðkaupsaksturs

Í dag minnast menn þess að 88 ár eru liðin frá því að bíll var í fyrsta sinn notaður til að aka brúðhjónum til vígslu, en 6. júní árið 1914 voru Guðrún Einarsdóttir og Gísli Sveinsson, síðar þingforseti og sendiherra, gefin saman í Dómkirkjunni. Nú fer tími giftinga í hönd og eru fornbílar algengir farskjótar brúðhjóna, þó allir séu þeir yngri en af árgerð 1914. [06.06]


Kranabíllinn á batavegi

Margir fornbílamenn muna þegar kranabíllinn tapaði vélarmætti sínum á leið til landsmóts í Laugarási á liðnu sumri. Við nánari eftirgrenslan kom í ljós að vélin hafði ekki hlotið þá gæða uppgerð sem til stóð í upphafi og því var leitað á náðir Péturs Jónssonar fornbílavölundar, sem nýlega hefur látið af störfum hjá Þjóðminjasafni. Hann þekkir Chevroletvélarnar vel og hefur náð að koma krana gamla til vænlegrar heilsu á ný, þannig að hann verður væntanlegur með í ferðir klúbbsins í sumar. [05.06]


Minnkandi kreppa í fornbílasölu

Verðlagning fornbíla er ágætis mælikvarði á ríkjandi efnahagsástand, en eins og flestir vita þá ríkir nokkur efnahagslægð hérlendis jafnt sem vestanhafs. Nýlega er lokið miklu fornbílauppboði vestra og ekki gátu menn greint skæð kreppumerki á viðskiptunum þar og því spurning hvort landið sé farið að rísa á ný. Í meðfylgjandi grein er að finna marga glæsilega fornbíla og ekki spillir myndamappa með 48 bílum. [05.06]


Blíðviðri á minningardegi

Fornbílafélagar okkar í vesturheimi nota hvert tækifæri líkt og við til að sýna fornbílana sína. Classic Legend Car Club hélt upp á minningardaginn (Memorial day) með fornbílasýningu í miklu blíðviðri í Michiganríki. Var margt um menn og fornbíla eins og sjá má á meðfylgjandi slóð og myndamöppu með 28 glæsilegum bílum: http://detnews.com [04.06]


Fornbílafélag Suðurlands

Félagar okkar á Selfossi eru dugmiklir fornbílamenn eins og fram kom í síðasta hefti Fornbílsins, félagsriti Fornbílaklúbbsins. Nú hafa þeir stofnað eins konar systurfélag Fornbílaklúbbsins á Selfossi sem þeir nefna Fornbílafélag Suðurlands. Fulltrúi þeirra Pétur Hjaltason kom á aðalfund Fornbílaklúbbsins og greindi frá áformum félagsins, sem er að vinna að brautargengi fornbíla á Suðurlandi og bjarga þeim frá tortímingu. Í sumar mun félagið standa fyrir fornbíla- og varahlutamarkaði á Selfossi og verður öllum fornbílamönnum boðið að vera með. [03.06]