Eldri fréttir - Maí 2002

Glæsileg afmælisgjöf

Fornbílaklúbbur Íslands fékk í gær formlega afhenta merkilega afmælisgjöf frá fyrirtækinu Töltheimum, en það er forláta hestvagn sem smíðaður var á ofanverðri 19. öld og er því á að giska 100 árum eldri en Fornbílaklúbburinn. Vagninn er að sjálfsögðu minnisvarði um forvera bílsins og verður sem slíkur varðveittur á Fornbílasafni Íslands í Elliðaárdal.[30.05]


Íslensk Pontiacsíða

Það leynast víða áhugaverðar heimasíður bílamanna. Kristinn Rudolfsson (ekki sonur Rudolfs Kristinssonar gjaldkera Fornbílaklúbbsins) sendi ritstjóranum upplýsingar um síðu sem hann hefur gert og tileinkar Pontiac bílum. Sjálfur á hann einn slíkan frá sjöunda áratugnum og óskar eftir myndum af Pontiac bílum á öllum aldri ef einhverjir luma á slíkum. Slóðin á heimasíðuna Kristins er: http://gtoracing.homestead.com [30.05]


Blæjubílarnir vinsælir

Svo virðist sem bjart sumarið sé komið vestra, því sala blæjubíla hefur aldrei verið meiri á þeim bæ, ef marka má meðfylgjandi frétt í Detroit News. Ford Mustang blæjubíllinn er sá söluhæsti, en það er gaman að sjá að innan um marga nýmóðins bíla skuli leynast nokkrir sem ættir sínar og útlit eiga að rekja til horfinna glæsivagna. Trónir þar hæst nýi Thunderbirdinn sem ber sterkt svipmót elstu og eftirminnilegustu þrumufuglanna, sem framleiddir voru á árunum 1955-57. Lesið meira hér: http://detnews.com. [29.05]


Nýr heiðursfélagi

Á aðalfundi Fornbílaklúbbsins síðasta sunnudag var Jón Kristinn Björnsson gerður að heiðursfélaga klúbbsins. Jón er einn af brauryðjendum klúbbsins, stofnfélagi og einn fyrsti Íslendingurinn til að hefja varðveislu fornbíla. Árið 1963 bjargaði Jón einum verðmætasta bíl landsins frá glötun, Cord árgerð 1936, og gerði hann upp á frá grunni þrátt fyrir mikinn varahlutaskort. Cordinn var sýndur á afmælissýningu klúbbsins um hvítasunnuhelgina og vakti verðskuldaða athygli. Jón er þriðji heiðursfélagi klúbbsins, en áður höfðu Bjarni heitinn Einarsson og Jóhann Björnsson fengið nafnbótina. [28.05]


Aðeins sjö formenn á 66 árum

Mörgum þykir núverandi formaður Fornbílaklúbbsins vera orðinn svolítið þaulsetinn eftir níu ára valdatíma, en hann er fjórði einstaklingurinn sem gegnir þessu embætti á 25 ára tímabili. Enn þaulsetnari hafa menn verið í einu sterkasta verkalýðsfélagi Bandaríkjanna, United Auto Workers (UAW), en þar hafa einungis sjö menn gengt formennsku á 66 árum. Þar sat lengst og fastast Walther P. Reuther, frá 1946 til 1970, en hann eldaði grátt silfur við marga þá stærstu í bílaframleiðslunni, m.a. Ford. Var Reuther sýnt banatilræði í formannsstólnum og vonar formaður Fornbílaklúbbsins að slíkt megi seint henda hérlendis! Nánari upplýsingar um UAW og formennina sjö er að finna hér: http://detnews.com [28.05]


Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Fornbílaklúbbsins var haldinn í gær. Alls mættu um 50 félagar á fundinn og er það áþekk mæting og undangengin ár. Ræða formanns snérist fyrst og fremst um byggingamál klúbbsins, framleiðslu steðjanúmera og viðræður við stjórnvöld um lækkun aðflutningsgjalda á fornbílum. Þeir sem kjörnir voru í stjórn félagsins voru Rudolf Kristinsson gjaldkeri, Ingibergur Bjarnason og Steingrímur Snorrason. Varamenn voru kjörnir Gunnar Pálsson og Hans Gíslason. Aðrir í stjórn klúbbsins eru Örn Sigurðsson formaður, Ingimundur Benediktsson ritari, Árni Þorsteinsson og Rúnar Sigurjónsson. Í ljósmyndakaflanum er að finna nýjar myndir sem teknar voru af hluta þeirra fornbíla sem mættu á fundinn. [27.05]


Afmæli H-dagsins

Í gær voru 34 ár liðin frá því hægri umferð var tekin upp á Íslandi, en þá hafði landinn ekið samfellt í 60 ár á vinstri vegarhelmingi. Þegar vegalög voru staðfest árið 1907 var ákveðið að hér á landi skyldi vera vinstri umferð og var það einkum gert vegna ríðandi kvenfólks sem notaði söðla og sat með báða fætur vinstra megin á hestinum. Til stóð að skipta yfir í hægri umferð árið 1941, en hætt var við það vegna hernáms Breta sem voru vanir vinstri umferð. [27.05]


Ábending um góð bílalökk

Heimasíðan hefur fengið ábendingu um góð fornbílalökk frá Autocolor sem seld eru í fyrirtækinu Bílalakk ehf, Skemmuvegi 14 í Kópavogi. Þar fá félagar í Fornbílaklúbbnum 10% afslátt af öllum lakkvörum. Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um hin ágætu Autocolor lökk er bent á heimasíðuna www.ppg.com/nexaautocolor [24.05]


Skipulag safnasvæðis auglýst og afturkallað!

Í Morgunblaðinu í gær var samþykkt aðalskipulag fyrir Elliðaárdalinn formlega auglýst til 6 vikna kynningar. Í þessu skipulagi er meðal annars gert ráð fyrir bílasafni Fornbílaklúbbsins og stærra orkuminjasafni. Nú hefur Stangaveiðifélag Reykjavíkur fett fingur út í skipulagið og gert málið að pólitísku bitbeini með því að afhenda það fulltrúa minnihlutans í borgarstjórn. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag hefur skipulagið nú verið tekið úr auglýsingu meðan verið er að huga að húsnæðismálum veiðimanna. Skipulagsyfirvöld hefðu betur beðið með auglýsinguna fram yfir kosningar og þannig komið þannig í veg fyrir að stjórnmálamenn í pólitískum darraðadansi hindri eðlilega framvindu þessa máls! [23.05]


Heimasíða T-Ford félagsins

Í gær var greint frá því að til stendur að gera upp gömlu Ford verksmiðjuna við Piquette stræti í Detroit. Félagið „Model T Automotive Heritage Complex Inc.” sem stendur að uppgerð hússins, hefur sett upp mjög skemmtilega heimasíðu, en þar er meðal annars að finna mikið af áhugaverðum fróðleik fyrir fornbílamenn: www.tplex.org [23.05]


Góð sölusíða með fornbílum

Það eru margir fornbílamenn vel heitir eftir glæsilega fornbílasýningu og af því tilefni hafði einn af lesendum heimasíðunnar samband við ritstjórann og benti á magnaða sölusíðu fyrir fornbíla. Hann sagðist ekki skoða aðrar síður í leit sinni að hinum eina rétta fornbíl, einkum þar sem þarna er að finna mikið af góðum bílum sem eru vel innan við 10 þúsund dollara markið. Slóðin er: www.cars-on-line.com [22.05]


Fæðingarstaður T-Fordsins breytir um svip

Húsið þar sem bílaverksmiðja Henry Ford starfaði á árunum 1904-1910 mun á næstu misserum breytast úr afdönkuðu pakkhúsi í merkilegt safn. Byggingin, sem stendur við Piquette stræti í Detroit, er ekki gríðarlega stór en er engu að síður talin vera ein sögulegasta bílabygging heims. Þar störfuðu 500 manns í 10 tíma á dag, 6 daga vikunnar undir handleiðslu Henry Ford og sköpuðu meðal annars T-Fordinn árið 1908. Tveimur árum síðar var framleiðslan flutt í risaverksmiðju við Highland Park, þar sem starfsmönnum fjölgaði í 100.000 og 1000 bílar runnu daglega af færiböndum sem gengu 24 tíma á sólarhring. Félagið „Model T Automotive Heritage Complex Inc.” hyggst safna þeim sjö milljón dollurum (um 650 millj.kr.) sem þarf til að færa þessa sögulegu byggingu í upprunalegt horf. Myndir og nánari umfjöllun hér: http://detnews.com.[22.05]


Myndir frá afmælishátíð klúbbsins

Nú er slatti af myndum frá afmælishátíðinni kominn inn á myndakafla heimasíðunnar, frá sýningunni í húsi B&L og afmælissamsætinu á Grand Hótel. Það vantar tilfinnanlega myndir frá spyrnukeppninni á laugardaginn og eru þeir sem luma á myndum frá henni beðnir um að setja sig í samband við Svein Þorsteinsson í netfangi sv1@vks.is [21.05]


Frábær mæting á afmælissýningu

Fjöldi gesta á afmælissýningu Fornbílaklúbbsins um helgina í húsi B&L fór fram úr björtustu vonum. Um 3300 einstaklingar borguðu sig inn, en heildarfjöldi gesta með félagsmönnum og börnum fór vel yfir 5000. Fór sýningin afar vel fram í alla staða, undirbúningur og uppsetning gengu fumlaust fyrir sig og gestir lýstu mikilli ánægju sinni með sýningargripina. Fullyrða má að þetta sé ein best heppnaða sýning á vegum klúbbsins til þessa og líta menn björtum augum til væntanlegrar stórsýningar á 100 ára afmæli bílsins á Íslandi árið 2004. [21.05]


Best uppgerði og hirti bíll sýningarinnar

Fyrirtækið Filtertækni, umboðsaðili AutoGlym bílhirðuvara, skipaði þriggja manna dómnefnd á fornbílasýningunni sem kaus best hirta og uppgerða bílinn. Sá sem bar sigur úr býtum var Land Rover árgerð 1964, sem er í eigu Sigurjóns Karlssonar, en hann fékk 418 stig. Í öðru sæti með 395 stig var Mercury árgerð 1956 í eigu Gunnars Hafsteinssonar. Þrír bílar lentu í þriðja sæti með 372 stig: Ford A árgerð 1930, Buick árgerð 1932 og Willys árgerð 1946. Stefnt er að því að halda þessa keppni árlega og hefur verið útbúinn farandskjöldur sem ganga mun á milli sigurvegara í framtíðinni. Þess má geta að sá sem einu sinni hefur unnið til verðlauna hefur ekki rétt til að keppa aftur.[21.05]


Aftur til fortíðar

GM hyggst hefja framleiðslu á nýjum SSR roadster pickup, sem er æði fornbílalegur útlits og er það vel. Verður hann smíðaður í Lansingborg, þar sem framleiðsla Oldsmobile hefur staðið samfleytt í 105 ár, eins og fram kemur í góðri grein um þennan ágæta bílaframleiðanda í nýjasta tölublaði Fornbílsins, sem dreift var til félaga Fornbílaklúbbsins í síðustu viku. Nánari fréttir af SSR bílnum eru hins vegar hér: http://detnews.com [15.05]


Engan sóðaskap við Esjumel takk!

Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi klúbbsins hafa nokkrir menn tekið upp á þeim ósið að skilja bílflök eftir við geymslur klúbbsins við Esjumel. Sóðaskapur nágranna okkar hefur greinilega smitað út frá sér og er það miður. Fyrir þremur vikum var nær ónýtur Volvo Amazon skilinn eftir við eina geymsluna og fyrir nokkrum dögum gaf gerandinn sig fram við klúbbinn. Sá er fornbílafélagi norðan úr Skagafirði sem hefur nú auglýst bílinn gefins til allra sem vilja. Að öðrum kosti verður bíllinn fjarlægður á hans kostnað. Þó norðlendingar virðist endalaust geta skreytt sveitir sínar með bílflökum, þá leyfist mönnum það ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. [14.05]


Áhugaverður íslenskur bílavefur

Ritstjóra hefur borist ábending um heimasíðuna bilavefur.com sem stofnaður var af íslenskum bílaáhugamanni. Þar er meðal annars að finna sögu Camaro og Chevrolet Nova og gríðarlega mikinn myndabanka með ljósmyndum af 1500 bílum af árgerðum 1901 til 2001, sem margar hverjar gleðja augu okkar fornbílamanna. [14.05]


Verðlagsumræðu fagnað

Það er ánægjulegt að sjá hvað frétt um verðlagningu fornbíla vakti góð viðbrögð á spjallsíðunni í síðustu viku. Það eru greinilega skiptar skoðanir um málið og er það vel. Ritstjórinn tók eftir því að það eru helst þeir sem orðið hafa fyrir barðinu á aðflutningsgjaldaokrinu sem réttlæta hátt verðlag fornbíla, enda þekkja þeir að eigin raun hvað mikill peningur fer í að flytja inn góðan fornbíl. Það er afar skiljanlegt að þeir mótmæli því að eigur þeirra eigi eftir að gjaldfalla við komuna til landsins, en það vill oft verða raunin. Ástæða fréttarinnar var meðal annars óhóflegt gjald fyrir óuppgerðan A-Ford og einnig sú raunamynd sem blasti við fornbílamönnum í vetur þegar Chevrolet ´54 var látinn grotna niður utandyra við bílasölu hér í borg, vegna þess að siðlaus (og ósveigjanlegur) eigandi hélt uppi rugluðu gjaldi! [13.05]


Ljósmyndir frá skoðunardegi

Vel heppnaður skoðunardagur og vorferð austur í Grímsnes í blíðskaparveðri fóru fram á laugardaginn að viðstöddum miklum fjölda fornbíla. Slegið var met í Aðalskoðun, en þar voru 75 fornbílar skoðaðir, en á síðasta ári (sem einnig var metár) voru 72 fornbílar skoðaðir. Rúmlega 20 bílar renndu með í vorferð austur í Grímsnes, þar sem Sólheimar voru heimsóttir og farið á bráðskemmtilega leiksýningu, auk þess sem vistmenn voru keyrðir um sveitina á fornbílum. Teknar voru 40 ljósmyndir við Aðalskoðun og eru þær komnar inn í myndakafla heimasíðunnar. [13.05]


Fundað með fjármálaráðherra

Formaður Fornbílaklúbbsins fundaði með fjármálaráðherra síðastliðinn miðvikudag og var efni fundarins aðflutningsgjöld fornbíla. Ráðherra voru kynntar þær reglur sem gilda á hinum Norðurlöndunum í þessum efnum, en þar eru fornbílar undanþegnir tollum og vörugjaldi og í sumum tilfellum virðisaukaskatti. Formaður klúbbsins lagði áherslu á að núverandi innflutningsálögur hefðu haft hamlandi áhrif á vöxt og viðhald fornbílastofnsins í landinu, auk þess sem erfiðlega gengi að flytja inn ákveðna árganga, sem sárlega vantar í fornbílaflóru landsins. Fjármálaráðherrann tók vel í erindið og þar sem hann er af sterkum bílaættum má reikna með skilningi og vonandi jákvæðri niðurstöðu. Málið þarf hins vegar að fara fyrir þingheim, því framkvæma þarf lagabreytingu. [10.05]


Draumakeyrslan nálgast

Vestur í bílaborginni Detroit er undirbúningur hafinn fyrir fornbílaakstur mikinn sem nefndur er eftir lengstu götu borgarinnar „Woodward Dream Cruise“. Þá aka bílaborgararnir í einni halarófu í eftir þessari löngu götu, sem er hálfgerður Hafnarfjarðarvegur frá Pontiac borg inn í hjarta Detroit. R.J. Classic cars er farinn að selja mönnum bíla fyrir aksturinn og skoða má bílasöluna hér: http://detnews.com. [02.05]