Eldri fréttir - Apríl 2002

Sveitabílar

Vestur í henni Ameríku er margt að finna, meðal annars merkilega bílasölu í bænum Staunton í Illinoisríki, rétt við þjóðveg 66. Country Classic Cars er ekta sveitabílasala sem hefur lengi verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Þegar heimasíða þeirra er skoðuð sér maður fljótt að flestir bílarnir eru ættaðir af sveitabæjunum í kring, veðraðir fernra dyra gamlingjar sem fæstir hafa séð hvíta hringi. Við skulum bara vona að þeir hafi ekki orðið fyrir miklu hnjaski þegar hvirvilbyljirnir fóru yfir um síðustu helgina. Slóðin er: www.countryclassiccars.com [30.04]


Handskornir fornbílar

Heimasíðunni hefur borist bréf frá Bandaríkjamanninum William Jackson sem sérhæfir sig í að skéra út líkön af fornbílum í tré. Hefur hann fengið fjölda viðurkenninga fyrir starf sitt og þykir með bestu handverksmönnum heims á þessu sviði. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér handbragð hans, eða láta hann smíða eftirlíkingu af fornbílnum sínum, er bent á heimasíðuna www.woodenclassicwheels.com . [29.04]


Horft til framandi safna

Í síðustu viku var greint frá jákvæðri niðurstöðu borgaryfirvalda í málefnum Fornbílaklúbbs og Elliðaárdals, sem þýðir að þar mun rísa bílasafn áður en langt um líður. Forsvarsmenn klúbbsins hafa horft til margra átta í leit að góðum safnahugmyndum og heimsótt fjölmörg fornbílasöfn. Eitt gott safn er að finna í Sterling Heights í Michiganríki, en það er tileinkað Ford. Á meðfylgjandi slóð er að finna skemmtilega umfjöllun um safnið og 22 bíla er að finna í myndamöppunni: http://detnews.com [26.04]


Fornbílar fyrir hugaða eiginmenn

Guðmundur Þór Ármannsson fornbílafélagi og Fordsérfræðingur í Kópavogi hafði samband við fréttastjórann og benti á öfluga heimasíðu þar sem mökkur af fornbílum er til sölu. Vísar Guðmundur mönnum á þessa síðu sem verða hugstola af hrifningu yfir nýja fornbílnum hans, sem er Ford blæjubíll árgerð 1962. Hann bætir því þó við að þessi skyndilegi áhugi hjá þeim sem heimsækja hann í skúrinn sé snarlega slökktur af eiginkonunum þegar heim er komið! Hvað er þetta eiginlega með ykkur þarna úti, eruð þið valdalausir innan veggja heimilisins? Veljiði ykkur frekar fornbíla á heimasíðunni sem Guðmundur ræddi um: www.collectorcartraderonline.com [24.04]


Volga 21 í hámæli

Í síðustu viku greindum við frá Pobetu sem Hornfirðingar hafa bjargað frá eyðileggingu og um helgina birti Detroit News áhugaverða grein um Volgu 21, en Íslendingar muna vel eftir henni sem eldri Volguna sem flutt var inn hingað á árunum kringum 1960 þegar við fengum bíla, bensín og olíu frá Sovétríkjunum í skiptum fyrir fisk. Greinarhöfundur fullyrðir að þetta sé eini fallegi bíllinn sem framleiddur var í austrinu og kaupendur voru aðallega menntamenn, flokksbroddar og KGB sem fékk sérstakar V-8 útgáfur af þessum bílum. Rætt er við fjölda fólks í Moskvu um ágæti þessara bíla og fornbílaklúbbinn sem um þá snýst og komst ein kona svo að orði að framleiðsla þeirra hafi verið tákn um endurreisn Sovétríkjanna eftir hildarleik stríðsins, ekki síður en Spútnikinn. Lesið meira á http://detnews.com og skoðið myndir .[23.04]


Chrysler snýr vörn í sókn

Margir fornbílamenn hafa óttast að hið gamalgróna bílafirma Chrysler væri að berja nestið í kjölfar hrikalegs taps á síðasta ári. Nú hefur þýskum stjórnendum þess tekist að snúa óhellaþróuninni við og skilaði Chrysler hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins. Sömu sögu er ekki hægt að segja af hinu nær aldargamla Fordfirma, sem tapaði 800 milljónum dala á fyrstu þremur mánuðunum, eftir að hafa tapað 4,5 milljarði dala á síðasta ári. Lesið meira um Chrysler og Chryslersafnið á þessari slóð: http://detnews.com [19.04]


Austurglugginn opnaður

Fornbílafélagi okkar á Akureyri, Hjalti Jóhannesson, hefur sent heimasíðunni upplýsingar um áhugaverða tengla sem tengjast austantjaldsbílum. Hjalti segir orðrétt: „Þótt ég sé kannski enginn sérstakur áhugamaður um þessa bíla sem slíka þá er þetta áhugavert efni. Þarna á meðal eru t.d. ZIL-bílar sem eru eiginlega Packard-kópíur, m.a. eru þarna bílar nauðalíkir forseta-Packardinum - kannski mætti þarna fá ódýra varahluti í hann??? Annars er til slatti af síðum um þetta, en ég held að þessar séu í betri kantinum:“ www.geocities.com/MotorCity/Downs/3673/   www.geocities.com/MotorCity/Speedway/4546/   http://digilander.iol.it/cuoccimix/ http://home.clara.net/peterfrost/ [18.04]


Elliðaárdalsmál samþykkt!

Deiliskipulag Elliðaárdalsins var tekið fyrir í síðustu viku hjá skipulags- og bygginganefnd borgarinnar og hjá borgarráði í gær og samþykkt einróma á báðum stöðum. Mörg ljón hafa verið á vegi málsins á liðnum misserum, enda er Elliðaárdalurinn eitt af friðlýstum svæðum borgarinnar sem erfitt er að fá leyfi til að byggja á. Málið hefur þó þokast í rétta átt, en það snýst um öllu meira en eitt fornbílasafn, því einnig er um að ræða gríðarstóra viðbyggingu við raforkuminjasafn Orkuveitunnar og Landsvirkjunar og þjónustubyggingu með kaffihúsi og fundaraðstöðu. Skipulagið fer vonandi í almenna kynningu áður en langt um líður og að henni lokinni er hægt að hefjast handa. Á meðan safnar byggingarsjóður Fornbílaklúbbsins vöxtum. [17.04]


Minningargrein um Oldsmobile

Fornbíllinn, félagsrit Fornbílaklúbbsins, er í prentvélunum þessa dagana og styttist óðum í útkomu þess. Efni blaðsins er afar fjölbreytt að vanda, en þar er í fyrsta skipti minningargrein um bílategund. Oldsmobile hverfur brátt af sjónarsviðinu, elst bandarískra bílamerkja og hefur Guðbjartur Sigurðsson skrifað grein um þennan merka bílaframleiðanda. Það hafa vinir okkar á bílasíðu Detroit News einnig gert í ágætis grein og öndvegis „myndagalleríi“ með 30 myndum: http://detnews.com[16.04]


Volvo 75 ára!

Í gær 14. apríl héldu frændur okkar Svíar upp á 75 ára afmæli Volvo. Skiptar skoðanir hafa lengi verið um þessa bíla, en flestir eru þó sammála um að fornbílar þeirra hafa enst bæði vel og lengi, t.d. Amazoninn og kryppan, og fáa jafnoka eiga Svíarnir þegar kemur að umferðaröryggismálum. [15.04]


Suðrið sæla

Með hækkandi sól hér á norðurslóðum hressist andinn hjá landanum og nú styttist óðum í að fornbílarnir okkar yfirgefi myrkraðar geymslur sínar og aki mót bjartari dögum. Í karabíska hafinu, þar sem engra árstíða gætir og sólin vermir menn stöðugt og kætir, má aka fornbílunum allt árið, auk þess sem þar er hvorki að óttast ryð né sagga. Íslendingar hafa nokkuð sótt í fornbílaparadísina á Kúbu, en í nágrenni hennar er önnur eyja síst lakari fyrir fornbíla, en það er Puerto Rico. Á meðfylgjandi vefslóð er að finna grein um fornbílamenninguna þar og 38 ljósmyndir að auki með glæsilegum ökutækjum liðinna tíma: http://detnews.com . [11.04]


Fornbílarafmagn

Fyrirspurn hefur borist um aðila sem er góður í rafmagnsmálum fornbíla. Ritstjóri heimasíðunnar veit um einn mjög góðan, en sá heitir Sævar Hallgrímsson og rekur lítið fyrirtæki með heitinu „Sævar, bíla- og bátarafmagn“ sem er til húsa á Kirkjubraut 13 á Seltjarnarnesi (sími 561-1466). Margir fornbílamenn hafa mjög góða reynslu af Sævari í rafmagnsmálum, en þess má geta að hann er einnig mjög snjall blöndungaviðgerðarmaður. [10.04]


Billy Wilder kveður

Meistari svart-hvítu kvikmyndanna (film-noir) Billy Wilder kvaddi í síðustu viku, en með honum er genginn síðasti fulltrúi horfinnar kynslóðar. Kvikmyndaráð Fornbílaklúbbsins mun á hausti komanda leggja meiri áherslu á klassískar kvikmyndir frá miðri síðustu öld og ofarlega á listanum er stórmyndin Sunset Boulevard frá árinu 1950, en henni var einmitt leikstýrt af meistara Billy Wilder. [10.04]


Víða leynast safngripir

Sigurður Mar Halldórsson ritstjóri horn.is á Hornafirði hafði samband við ritstjóra heimasíðunnar og sagði frá forláta Pobeda bifreið árgerð 1954 sem Einar Hálfdánarson hefur nýlega gefið Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Einar eignaðist þennan sovéska eðalvagn árið 1955 og hefur hann nú verið fluttur í geymslur safnsins þar sem hann býður uppgerðar. Félagar Fornbílaklúbbsins stefna að því skoða þennan bíl í langferð sinni um Suðausturland í sumar. Á eftirfarandi vefslóð er skemmtileg 11 mynda syrpa sem sýnir þegar bíllinn var dreginn út úr skúrnum þar sem hann hefur dvalið síðan 1968. [09.04]


Samstarf við samgönguminjasafnið að Skógum

Samgönguminjasafnið að Skógum verður vígt með viðhöfn helgina 22. – 23. júní. Stjórn safnsins og Fornbílaklúbbsins hafa gert með sér gagnkvæman samning um lán á sýningarmunum milli fornbílasafna, þegar fram líða stundir, en fyrst er félögum klúbbsins boðið í helgarferð að Skógum framangreinda helgi og sýna fornbílana við opnun safnsins. [09.04]


Sandblásarar

Fyrirspurnir hafa borist vegna sandblástursþjónustu fyrir fornbílamenn. Tveir aðilar eru vefstjóra efst í huga; Hjálmtýr í Sandblæstri HK, Helluhrauni 6 í Hafnarfirði (s.555-6005) og Sigurður í Bílasetrinu Flugumýri 18 í Mosfellsbæ (s.586-8685). Báðir þessir aðilar hafa víðtæka reynslu af sandblæstri og málningarvinnu fyrir fornbílamenn. [04.04]


Aftur til fortíðar

Það eru ekki bara evrópskir bílaframleiðendur sem hafa endurvakið gamlar bílgerðir, samanber bjölluna og mini, heldur hafa bandarískir einnig smitast af fortíðarbakteríunni. General Motors er nú að endurvekja hinn sögufræga GTO bíl og Ford er með nýjan Galaxie 500 og Mustang Mach 1 í burðarliðnum. Nú er bara að sjá hvort þessir nýju komast með tærnar þar sem þeir gömlu höfðu hælana. Lesið meira á: http://detnews.com. [03.04]


Bólstrun fornbíla

Umsjónarmaður heimasíðu hefur fengið nokkrar fyrirspurnir varðandi bólstrun fornbíla. Hafa menn velt vöngum yfir því hverjum sé treystandi í slíka aðgerð sem krefst vandvirkni og oft annarra handbragða en hefðbundin mublubólstrun. Einn félagi klúbbsins telst með réttu vera einn færasti fornbílabólstrari landsins og er því mjög auðvelt að mæla með honum til slíkra verka. Sá ágæti maður heitir Auðunn Jónsson og hefur farsíma 897-6537. [02.04]