Eldri fréttir - Mars 2002

Spjallþræðir á heimsíðunni

Á síðunni Gestir og spjall er kominn sérstakur hnappur merktur Umræður/spjall. Hér er á ferðinni verkfæri sem stundum er kallað spjallþræðir, en þar geta lesendur sent inn fyrirspurn varðandi fornbílamál, eða svarað fyrirspurn frá öðrum. Nú er um að gera að kíkja sem oftast á umræðusíðuna og blanda sér í málin. Þeir sem þurfa á upplýsingum að halda um eitt og annað sem snertir áhugamálið eru óspart hvattir til að leggja inn erindi og hinir sem þekkja til málanna eru beðnir um að svara. Eins og nefnt var hér í gær er nauðsynlegt að nota „refresh“ takkann sem oftast til að kalla fram nýjustu upplýsingar. [26.03]


Lumar þú á fræðandi efni?

Fyrir helgi var birt áhugavert fréttaskeyti um eldsneyti fyrir fornbíla. Þar kom skýrt fram að fornbílar geta orðið aflvana og jafnvel andvana af V-Power og öðru ofursulli sem bruggað er sérstaklega handa háþrýstum nútímabílum. Því ber að varast fagurgala olíufélaganna og best væri ef Fornbílaklúbburinn gæti hafið innflutning á eldfimu 89 oktana sovétbensíni sem flestir fornbílamenn minnast með sárum söknuði. Ef þú lumar á efni sem frætt getur aðra fornbílamenn, eða forðað þeim frá freistingum fagurgalanna, þá sendu fréttastjóranum línu hið snarasta: orn.sigurdsson@edda.is . [26.03]


Fræðsluefni í sérstökum kafla

Á þjónustusíðu heimasíðunnar er kominn sérstakur hnappur merktur fræðsluefni, en þar verða birtir fróðleiksmolar fyrir fornbílaeigendur. Komið er inn efni um bensín og væntanlegt er efni um bólstrun fornbíla, krómun og sandblástur, svo dæmi séu tekin. Þeir sem eru tíðir gestir á heimasíðunni er bent á að nota „refresh“ takkann sem allra mest til að kalla fram nýjustu upplýsingar. Tölvur eiga það til að geyma útlitið frá síðustu heimsókn og fela þannig nýjustu upplýsingar. „Refresh“ takkinn bjargar þessu. [25.03]


Safnamálin efst á baugi

Þessa dagana er fundað stíft með forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur vegna uppbyggingar tækniminjasafns í Elliðaárdal sem Fornbílaklúbburinn mun eiga myndarlegan hlut í. Í tilefni þess hefur Sigurbjörn Helgason sent okkur upplýsingar um þrjú merkileg söfn í vesturheimi. Studbakersafnið í Southbend er helgað þeim ágæta hestvagna og síðar bílaframleiðanda sem þar starfaði í rösklega 100 ár, frá 1852 til 1966: www.studebakermuseum.org. Packard var heldur skammlífara fyrirtæki og eru tvö söfn í Ohio helguð þessum merka bílaframleiðanda sem hóf framleiðsluna í Warren í Ohio árið 1901 en flutti sig nokkrum árum síðar til bílaborgarinnar Detroit: www.americaspackardmuseum.org og www.packardmuseum.org. [25.03]


Hvaða eldneyti skal nota á fornbíla?

Nú þegar farið er að halla að vori og veturstaðnir fornbílar fara á næstu misserum að streyma út á götur borgarinnar er rétt að leiða hugann að bensínkaupum. Fornbílamönnum er gjarnan annt um ökutæki sín og vilja þeim oftast það besta sem þeir geta fyrir þá gert í ummhirðu og rekstri. Margur fornbílamaðurinn sér nú oft ekki eftir að „splæsa“ á bílinn sinn eithverju dýru og fínu til að hann gangi nú vel og örugglega á leiðarenda ánægjulegrar ökuferðar. En ekki er allt fengið með verðinu og fullyrðingum í auglýsingum olíufélaganna. Sú er reynsla nokkra af okkar félögum klúbbsins sem tekið hafa þá ákvörðun að prófa hið svokallaða V-pover eldsneyti og önnur háoktana bensín á fornbíla sína. Flestir fornbílar eru ekki framleiddir með notkun slíks elsneytis í huga enda vélar þeirra lágþjöppuvélar sem eiga að ganga á eldfimu eldsneyti. Athuga ber þó að til eru örfáir yngri forbílar sem þetta á ekki við um. Sé þjappa vélar það há að gert sé ráð fyrir slíku háoktan eldneyti (sjá t.d. eigendahandbók bíls) má að sjálfsögðu nota það. Fyrir þá sem ekki vita, þá minnkar eldfimnin í bensíni eftir því sem oktantala þess hækkar. Eldfimni bensíns er lækkuð með bætiefnum til þess meðal annars að koma í veg fyrir forsprengingar í háþrýstu brunahólfi. Því hafa nokkrir af félögum okkar uppskorið aflleysi, missprengingar og ójafnan hægagang í fornbílum sínum með því að setja á þá bensín með of hárri oktantölu. Vill undirritaður því benda fornbílamönnum á að kaupa bara ódýrasta bensínið eða 95 oktan (sem í sumum tilfellum er jafnvel alltof hátt) á bíla sína og þannig njóta þess besta sem í boði er fyrir fornbílinn og budduna. Þetta ágæta fréttaskeyti barst heimasíðu Fornbílaklúbbsins frá Rúnari Sigurjónssyni formanni ferðanefndar klúbbsins. [22.03]


Bílar félagsmanna

Í kaflanum Myndir og saga á heimaíðunni hefur verið settur inn nýr hnappur með heitinu Bílar félagsmanna. Þar eru myndir og textar um nokkra fornbíla sem heimasíðunni hafa borist upplýsingar um. Ætlunin er að stækka þennan kafla til muna og nú vantar okkur mynd og upplýsingar um fornbílinn þinn!! Sendu vefstjóranum mynd og upplýsingar sem allra fyrst svo þessi upplýsingasíða geti orðið sem myndarlegust. Tekið er við stafrænum myndum og texta í póstfangi: orn.sigurdsson@edda.is . Þeir sem finna ekki nýja hnappinn í kaflanum Myndir og saga er bent á að ýta á „refresh“ hnappinn, þá ætti allt það nýjasta að birtast. [22.03]


Sérpantanir á fornbílarúðum

Í fræðsluferð klúbbsins í gærkvöldi til Snorra G. Guðmundssonar voru fornbílamenn meðal annars uppfræddir um framrúður og þar kom fram að hægt er sérpanta rúður í nær allar gerðir fornbíla. Dýrastar eru svonefndar panoramarúður, eða víðsjárrúður eins og þeir heita á íslensku, en ódýrastar eru flötu rúðurnar í elstu bílana. Allar þessar rúður eru með öryggisfilmu og er ágæt ábending til fornbílmanna sem eru með perlurúður í bílum sínum að skipta þeim út, enda fylgir því hryllilegur sóðaskapur þegar þær splundrast. [21.03]


Fundað með Skráningarstofu

Formaður Fornbílaklúbbsins fundaði í gær með forsvarsmönnum Skráningarstofu vegna númeraframleiðslu klúbbsins. Lýstu þeir yfir ánægju sinni með gæði framleiðslunnar, en ítrekuðu um leið að ekki væri heimilt að framleiða plötur á yngri bíla en 25 ára. Jafnframt lögðu þeir áherslu á að þegar kaupendur hafa fengið nýjar plötur í hendur, ber þeim skylda til að sýna þær hjá Skráningarstofunni í Reykjavík, eða hjá umboðsmönnum hennar á landsbyggðinni. [21.03]


Gamlar tjónamyndir

Ritstjóri heimasíðunnar fékk ábendingu um gamlar tjónamyndir á heimasíðu Tryggingamiðstöðvarinnar. Þar gefur að líta myndir af umferðaróhöppum í Reykjavík og nágrenni, sem flest áttu sér stað á árunum eftir 1960, og eru nokkrir bílanna á myndunum vel komnir til ára sinna þegar óhöppin urðu. [20.03]


Fornbílarallý í Norður Svíþjóð

Vinur okkar Timo Vuortio stjórnarmaður í Fornbílaklúbbi Norður-Svíþjóðar býður íslenskum fornbílamönnum að koma til Norbotten í sumar og taka þátt í Polar fornbílarallinu dagana 27. til 30. júní. Nánari upplýsingar um rallið er að finna á vefsíðunni www.polarrally.nu. [19.03]


Faðir Mustangsins vill aftur í slaginn

Hinn 77 ára gamli Lee Iacocca, sem fornbílamenn þekkja best sem markaðshugsuðinn á bak Mustanginn, en bílaheimurinn þekkir best sem bjargvætt Chryslers á níunda áratugnum, vill aftur taka slaginn hjá Chrysler. Efnahagskerfi Bandaríkjanna hefur tekið bakfall á síðustu misserum sem hefur illilega skaðað bílaframleiðendur, einkum Chrysler og Ford. Iacocca hefur tjáð sig undanfarið í Detroit News um stöðu Chrysler og hefur boðið fram aðstoð sína. Nýi eigandi Chryslers, Daimler Benz, olli hins vegar nokkrum usla í Detroit þegar þeir báðu öldunginn vinsamlegast um að halda sig áfram á elliheimilinu! Þeir sem vilja fræðast nánar feril Iacocca geta lesið hér: http://detnews.com. [19.03]


Hvort kom á undan hænan eða eggið?

Bollaleggingar um vörumerki geta tekið á sig ólíklegustu myndir. Í síðustu viku rákust forsvarsmenn Máls og menningar á frétt í dagblaði þar sem greint var frá nýjum Maybach bíl frá Mercedes. Þótti þeim merki bílsins (MM) ótrúlega líkt vörumerki Máls og menningar og fullsýnt að þýskir hefðu tekið íslenska vörumerkið traustataki. Ræddu þeir málið við formann Fornbílaklúbbsins, sem (því miður fyrir þá) komst að því að Maybach merkið er yfir 80 ára gamalt. Rifjaðist þá upp fyrir þeim að Kristinn E. Andrésson hefði dvalist í Berlín á árunum 1925-27 og þá örugglega barið Maybach glæsivagna augum. Hann hefur síðan haft merkið í kollinum þegar hann stofnaði sitt öfluga bókmenntafyrirtæki árið 1937. Merki Máls og menningar má sjá á blaðsíðu 139 í símaskránni, en snoðlíkt Maybach merkið er hér: http://detnews.com. [18.03]


Átt þú stafræna mynd af fornbílnum þínum?

Á ljósmyndasíðu nýju heimasíðunnar verður fljótlega settur upp nýr kafli sem bera mun heitið fornbílar félagsmanna. Ef þú ert með stafræna mynd af bílnum þínum sendu hana þá endilega til ritstjórans orn.sigurdsson@edda.is ásamt upplýsingum um tegund, árgerð og sögu. Nú er möguleiki að byggja upp glæsilegt myndasafn með bílum félagsmanna.[15.03]


Fleiri ljósmyndir

Í ljósmyndakaflann „Gamlar bílamyndir“ hafa nú verið settar inn 14 nýjar myndir. Eru þær úr safni feðganna Bjarna Einarssonar frá Túni og Ingibergs sonar hans, sem tók við viðamiklu safni föður síns að honum látnum. Ingibergur veitir auk þess ljósmyndasafni Fornbílaklúbbsins forstöðu, en samanlagður fjöldi mynda í söfnunum er yfir 6000. Er hér um ómetanlegar bílsögulegar heimildir að ræða og stefnt er að því að þessi myndabanki verði smám saman gerður sýnilegur hér á heimasíðu Fornbílaklúbbsins. [15.03]


Rouge undir sleggjuna

Detroit news greinir frá því í dag að Ford hafi tekið ákvörðun um að rífa River Rouge verksmiðjuna í Dearborn þar sem núna eru settir saman Mustang bílar. Í staðinn á að reisa umhverfisvæna og bjarta trukkaverksmiðju og móttökumiðstöð fyrir ferðamenn. Rouge var stærsta bílaverksmiðja heims á árunum 1920 til 1950, hönnuð af þýsk-ameríska arkítektinum Albert Kahn. Þegar best lét voru starfsmenn hússins 100.000 og lagði Henry Ford áherslu á hið sjálfbæra kerfi, þar sem hrátt stálið kom inn um annan endann en tilbúnir bílar keyrðu út um hinn. Fréttin í heild sinni er hér: http://detnews.com [14.03]


Vefsíða Leós með aukið efni

Heimasíða Fornbílaklúbbsins hefur fengið skilaboð frá Leó M Jónssyni þess efnis að sögukafli hans um Ford Mustang hafi verið stækkaður og sérgrein birt um Edelbrock blöndunga. Jafnframt hefur Leó skrifað ágætis greinar um Studebaker, Pontiac og Porsche, svo og um umferðaröryggismál sem Íslendingar ættu að lesa sem oftast og fara eftir! Heimasíða er Leó er slóðinni: www.leoemm.com . [13.03]


Hjalli aftur í blásturinn

Vinur margra fornbílamanna Hjálmtýr Sigurðsson, Hjalli sandblásari, átti við vanheilsu að stríða síðustu mánuði en er nú aftur kominn á fullt í blásturinn. Þeir sem komu að luktum dyrum hjá honum geta nú tekið gleði sína aftur og mætt galvaskir með allt sem þarf að sandblása til Hjalla, sem er með þjónustu sína við Helluhraun 6 í Hafnarfirði. [12.03]


Mustang.is

Áhugamenn um Ford Mustang hafa stofnað með sér einskonar vefklúbb þar sem safnað hefur verið saman upplýsingum og myndum um Mustang bíla á Íslandi og nöfnum þeirra sem áhuga hafa á þessum skemmtilegu bílum. Hér er á ferðinni áhugaverð heimasíða sem gaman er að skoða. Slóðin er www.mustang.is . [12.03]


Íslenskir Benzar á vefnum

Í dag var opnuð ný heimasíða tileinkuð gömlum Benzum og eigendum þeirra. Síðan var sett upp af Sveini Þorsteinssyni tæknistjóra fornbílaklúbbssíðunnar og er nýja Benzsíðan einskonar systursíða hennar. Þar er að finna fjölmargar myndir af gömlum Benzum og upplýsingar um þá. Slóðin er www.fornbill.is/benz . [11.03]


Pantið Steðjanúmer tímanlega!

Nú styttist í næstu þrykkingu Steðjaplatna og því er um að gera að hringja í hvelli í síma 895-8195, eða senda pöntun í gegnum þjónustukafla heimasíðunnar. Þeir sem hafa ekki kynnt sér skráningarmálin geta gert það í þjónustukaflanum eða haft beint samband við Skráningarstofuna í síma 580-2000 og kannað hvort óskanúmerið er á lausu. Skráningargjald fyrir Steðjanúmer er einungis 500 kr. [11.03]


Packard verksmiðjurnar

Talandi um Packard þá er á netinu heimasíða tileinkuð rústum Detroitborgar og þar er að finna fínar myndir af Packard verksmiðjunum eins og þær líta út í dag. Fyrir tveimur árum var ákveðið að rífa þær, en fornbílamönnum vestra tókst að afstýra því slysi og kannski verður þarna bílasafn í framtíðinni. Þess má geta að þegar menn voru að undirbúa rifrildið fundu þeir milljón Uniroyal diagonal hjólbarða í einni byggingunni. Höfnuðu þeir allir í brennsluofnum borgarinnar til upphitunar vatns og vafalaust hefur mengunin í bílaborginni ekki minnkað þann veturinn! Myndirnar af Packard verksmiðjunum finnur þú hér: http://detroityes.com. [08.03]


Nýi Packardinn

Í gær var sagt frá nýjum Mayback bíl frá Daimler og minnst eilítið á nýja Packardinn. Nokkrir héldu að fréttastjórinn væri að gera grín að þessum sáluga framleiðanda glæsivagna, en svo er alls ekki, enda téður fréttastjóri einn örfárra Íslendinga sem skoðað hefur Packard verksmiðjurnar í Detroit. Staðreyndin er sú að það hefur staðið fyrir dyrum í nokkur ár að framleiða nýjan glæsivagn undir merkjum og svipmóti Packard, en brösulega hefur gengið að afla fjármagns til verksins. Þeir sem vilja skoða hinn glæsilega nýja Packard í bak og fyrir geta hoppað hér inn á slóðina www.packardmotorcar.com/ . [08.03]


Enn um e-Bay

Ritstjóri heimasíðunnar hefur fengið ábendingu um það að hjá netuppboðsfyrirtækinu e-Bay megi gera góð kaup í fleiru en fornbílum. Þar er hægt að kaupa varahluti í fornbíla, oft gegn vægu gjaldi, og í raun allt milli himins og jarðar. Aðalsíða E-Bay er: www.ebay.com. [08.03]


Lumar þú á fornbílafrétt?

Eins og þeir sem fylgst hafa með nýju fornbílasíðunni hafa tekið eftir, þá eru þar nær daglega nýjar fréttir. Ef þú lesandi góður lumar á einhverri frétt sem aðrir hefðu gaman af að heyra, sendu þá ritstjóranum línu og fréttin mun birtast innan tíðar. Netfangið er orn.sigurdsson@edda.is . Höldum síðunni lifandi og sendum inn fréttir af nýjum fornbílum, áhugaverðum heimasíðum, þjónustu við fornbílamenn, bílasögunni og öllu öðru sem snertir okkar frábæra áhugamál. [07.03]


Maybach aftur í framleiðslu

Einn af mestu glæsivögnum á fyrri hluta 20. aldar var hinn þýski Maybach sem byggður var á Mercedes undirvagni með 12 gata Benz vél. Framleiðslu þessa mikla bíls lauk árið 1941 og nú rúmum 60 árum síðar hefur Daimler Benz hafið framleiðslu á nýjum Maybach sem á sér enga hliðstæðu meðal lúxusbíla. Lesið meira um þennan dýrgrip (25 millur takk) á: http://detnews.com. Hvenær skyldi svo nýi Packardinn birtast? [07.03]


Íslenskir fornbílamenn í erlendum fjölmiðlum

Íslenskir fornbílamenn eru í auknum mæli farnir að sjást í erlendum málgögnum fornbílamanna. Nýlega birtist einstök mynd af Sigurbirni Helgasyni og Packard bíls hans á síðum Car Collector og á bandarísku Ponton vefsíðunni hafa birst fjölmargar ljósmyndir af íslenskum Ponton Benzum í eigu Rúnars Sigurjónssonar, Arnar Sigurðssonar og Steingríms Snorrasonar. Fyrir þá sem áhuga hafa á fallegum bílum, þá er slóðin: www.mbzponton.org/index.htm . [05.03]


Áhugaverð vefsíða fyrir kaupendur fornbíla

Á vefnum leynist margt skemmtilegt, ekki síst fyrir áhugasama fornbílamenn. Á uppboðssíðunni “e-bay” er reglulega að finna fjölmarga fornbíla sem hægt er að gera tilboð í. Gaman er að fylgjast með síðunni því hún tekur breytingum daglega og eflaust er hægt að gera góð bílakaup, og eflaust slæm líka, ef menn þora að taka þá áhættu sem felst í því að kaupa bíl af netinu. Slóðin er: http://pages.ebay.com/ebaymotors/browse/Collector.html . [05.03]


Brúðkaupsakstur

Á heimasíðunni er sérstakur kafli helgaður brúðkaupsakstri. Þeir aðilar sem taka að sér slíka þjónustu eru beðnir um að senda mynd af viðkomandi ökutæki og upplýsingar um nafn og símanúmer til: orn.sigurdsson@edda.is, eða gefa sig fram á miðvikudagskvöldum í félagsheimilinu. Einnig má hafa símasamband við Örn í farsíma klúbbsins 895-8195. [01-03]


Skilaboð til númerakaupenda

Þeim sem kaupa Steðjanúmer af Fornbílaklúbbnum er bent á að þegar þeir hafa fengið númerin í hendur, ber þeim skylda til að sýna þau á Skráningarstofunni í Reykjavík eða umboðsaðilum á landsbyggðinni, áður en þau eru sett á bílana. Vegna útrýmingar á ólögmætum plötum vilja yfirvöld kanna allar plötur sem ætlunin er að setja á fornbíla. Einnig er þeim sem vilja láta smíða fyrir sig Steðjaplötur fyrir vorið bent á að leggja pantanir inn sem fyrst til að koma í veg fyrir óþarfa framleiðsluálag fyrir skoðunardaginn. Tekið er við pöntunum alla daga í farsíma 895-8195, en einnig er hægt að panta plötur hér á heimsíðunni. [01-03]


Færeyski fornbílaklúbburinn 10 ára

Þann 10. febrúar sl. varð færeyski fornbílaklúbburinn Föroya Ellisakför 10 ára. Samstarf klúbbanna tveggja hófst fyrir rúmlega fimm árum þegar félagar Fornbílaklúbbs Íslands heimsóttu Færeyjar og ári síðar endurguldu frændur okkar heimsóknina. Nú íhugar stjórn klúbbsins að fara í opinbera heimsókn til Færeyja með fyrirlestrarferð um íslenskt fornbílastarf og fríska um leið upp á gömul og góð kynni. [01-03]